144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að vilji löggjafans sé skýr í þessu og að þeir sem eru í sambærilegri stöðu fái sambærileg úrræði. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur tækifæri til að bæta orðalagið ef það er hægt. Eins og hv. þingmaður nefnir getur hugtakið „önnur almenn lækkun“ eitt og sér verið mjög vítt. Hugsanlega eru þau þrengjandi ummæli sem síðan koma í setningunni ekki nægileg til að þrengja málið niður. Þá er hugsanlegt að við þurfum að skoða það og bæta.

Það er samt nokkuð ljóst að hverju er stefnt með þessu, að þau ákvæði sem voru í upprunalegu lögunum nái betur fram að ganga og það verði ekki vafi á því hvernig beri að túlka þau. Það er hlutverk okkar í þinginu og okkar í efnahags- og viðskiptanefnd að sjá til þess að það verði sem allra best. Og að því munum við keppa.