144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp er að sönnu ekki stórt að vöxtum og af hálfu aðstandanda þess er lögð áhersla á að um sé að ræða minni háttar tæknilega lagfæringu á lögunum til að tryggja betri framkvæmd hennar. Ég ætla ekkert að efa að sá er tilgangurinn. En það gefur fullt tilefni til að benda á þann mikla vanda sem er orðinn í málinu og hefur reyndar alltaf verið að mínu mati, og við erum hér að takast á um, og sprettur af því að botninn datt úr málinu í heild sinni, tapaðist einhvers staðar á tímanum frá því í lok nóvember, þegar skýrsla var kynnt með miklum tilþrifum í Hörpu, og fram að því að frumvarp kom fram. Það er enn þannig í tillögum starfshópsins í nóvemberlok að þar er skilgreindur forsendubresturinn sem eigi að leiðrétta, verðbólga umfram ákveðin mörk á ákveðnu tímabili skal tekin ofan á höfuðstól verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá var enn að minnsta kosti hægt að nálgast málið á þeim forsendum sem mest hafði verið talað fyrir, að um væri að ræða leiðréttingu á tilteknum forsendubresti sem þar með hafði þá verið skilgreindur. Enda var oftast rætt um málið þannig að ef menn ætluðu eitthvað að endurreikna eða endurstilla verðtryggð lán þá væri skynsamlegast að skoða þróun höfuðstóls þeirra og taka þá einhver tímabil þar sem verðbólgan hefði farið langt upp úr viðmiðunarmörkum Seðlabankans, t.d. efri viðmiðunarmörkum hans, og eftir atvikum leiðrétta mismuninn.

Þannig eru lögin ekki lengur eins og hér kom fram í orðaskiptum áðan, þau eru ekki þannig lengur. Niðurstaðan varð að ákveða 80 milljarða kr. inn á þessi verðtryggðu lán heimilanna, sem staðið höfðu á þessum árum, 2008 og 2009, og ráðstafa þeim í þetta verkefni í sjálfu sér algerlega óháð einhvers konar nálgun á grundvelli forsendubrests. Síðan yrði reikniverkið stillt af. Maður sér fyrir sér fjármálaráðherrann með skrúfjárn, hann fer inn í gangverkið í lokin, rétt áður en á að kveikja á rofanum, og skrúfar aðeins til þannig að allt passi við 80 milljarða; reyndar minna, vegna þess að gera verður ráð fyrir vaxtakostnaðinum á fjögurra ára framkvæmdatíma málsins. Og fjármálaráðherra hefur ekki enn komist í skrúfuna, meðal annars vegna þess að nú hafa menn uppgötvað eitt; frádráttarliðirnir eru ekki klárir. Þetta mál snýst um það.

Frú forseti. Það er ánægjulegt að við erum að fá enn frekari upplýsingar um að staða heimilanna að þessu leyti, hvað varðar skuldir þeirra vegna íbúðarhúsnæðis og eignastöðu þeirra almennt, hefur áfram farið batnandi. Nú þriðja árið í röð sést marktækur bati í því að skuldir heimilanna fara lækkandi. Það er að sönnu ánægjulegt.

Einhverjum yrði það tilefni til að velta enn frekar fyrir sér grundvelli þessarar aðgerðar og spyrja sig til dæmis þessarar spurningar: Eigum við að taka svona mikla fjármuni úr ríkissjóði, marga tugi milljarða sem við gætum svo sannarlega notað í annað, í heilbrigðiskerfið, í skólana, í að fara aðeins að reyna að halda við vegunum sem eru að hrynja í höndunum á okkur? Eigum við frekar að halda okkur við þetta, jafnvel gagnvart þeim heimilum sem komin eru í mjög góða stöðu? Nú hef ég allan tímann tekið fram að það er alveg ljóst að talsverður hluti þeirra heimila sem hér fær einhverja takmarkaða úrlausn á það svo sannarlega skilið og allir eiga allt gott skilið og það kemur sér víða vel. En það er alveg ljóst að stórt mengi innan hópsins fær fjármuni úr ríkissjóði sem er ekki í neinum minnsta vanda með að standa við skuldir sínar, hefur verið að bæta stöðu sína undanfarin ár, þar á meðal stóreignafólk.

Ég geri ekki ráð fyrir því að neinar umræður hafi farið fram innan stjórnarflokkana um að velta aðeins fyrir sér grundvelli aðgerðarinnar áður en sett verður í gang. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta eru nokkurs konar trúarbrögð. Jafnvel skynsömustu menn, jafnvel formenn í þingnefndum, frú forseti, hafa bara einhvern veginn gengið í þessi björg og svo er það sjálfsagt pólitískt ómögulegt því að þetta er tvinnaspottinn sem Framsóknarflokkurinn var dreginn að landi með eftir sín brjálæðislegu kosningaloforð. Tvinnaspottinn er þetta, reipið mikla er orðið að þessu.

Ég er feginn því, ég hef margsagt það opinberlega að ég er alveg guðs lifandi feginn því að svona lítið stendur eftir af kosningaloforði Framsóknarflokksins því að það var auðvitað þvílík geðveiki eins og það var sett fram fyrir kosningar, 250 til 300 milljarðar, sem átti reyndar að vera á kostnað erlendra hrægamma, eru orðnir að þessum 80 milljörðum, 72 til 73 milljörðum, í lækkun höfuðstóls að meðtöldum vaxtakostnaðinum á fjórum árum og á kostnað íslenska ríkisins.

Hvers vegna hefur staða heimilanna batnað? Jú, það hefur auðvitað verið að batna ástandið í samfélaginu, atvinnuástandið hefur batnað, kaupmáttur er aftur á uppleið. Við höfum búið við efnahagsbata núna fjórða árið í röð, tókst þó ekki verr en það að koma okkur upp úr hruninu. Og aðgerðir á síðasta kjörtímabili hafa að sjálfsögðu átt sinn þátt í því að fólki hefur tekist að ráða við þennan skuldabagga og er farið að ná að borga niður.

Frú forseti. Margar ræður voru haldnar úr þessum ræðustól á síðasta kjörtímabili af mikilli óbilgirni í garð þess sem þáverandi stjórnvöld voru að reyna. Algengasta ræðan, til dæmis hjá talsmönnum Framsóknarflokksins, var að ekkert hefði verið gert, ekkert hefði verið gert í skuldamálum heimilanna. Það er hægt að fletta þessu upp, þær eru margar til svona ræðurnar. En nú bregður svo við að aðstandendur þessa frumvarps, stjórnarflokkarnir, hafa allt í einu uppgötvað að heilmikið var gert, og það var svo mikið gert að þeir telja nauðsynlegt að draga það frá. Já, þá muna þeir eftir aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, 110%-leiðin, sértæk skuldaaðlögun, sérstök vaxtaniðurgreiðsla dregin frá. Peningarnir sem voru settir í að aðstoða fólk alveg sérstaklega við að ráða við vaxta- og afborgunarbyrðina á lánunum á þessum tíma. Það er dregið frá núna. Þá gangast menn við því að eitthvað hafi verið gert.

Þar með erum við komnir að þessu máli. Frádráttarliðirnir eru hins vegar ekki á hreinu. Í fyrsta lagi er ekki verið að leiðrétta neinn skilgreindan forsendubrest sem hægt er að reikna út og fá reikningslega niðurstöðu — þá hefðu frádráttarliðirnir birst sjálfkrafa í þeim útreikningum, því að ef höfuðstóllinn hefði verið lægri, vegna aðgerða banka eða stjórnvalda, en sem nam hinum útreiknaða forsendubresti þurfti ekki að leiðrétta það. Aðgerðin hefði að sjálfsögðu verið á allt öðrum lagalegum grunni og staðið miklu traustari fótum hvað það snertir ef menn hefðu haft slíka skilgreiningu. Það hafa menn ekki, heldur eru það 80 milljarðarnir á þá hliðina. Aðgerðin má bara ekki vera stærri. Hún á ekki að kosta meira. Það er forsendubresturinn sem ríkið telur sig hafa efni á, eða stjórnarflokkarnir komast að niðurstöðu um, á mannamáli var væntanlega þjarkað um það fram í rauðan dauðann þangað til menn að endingu sættust á að verðmiðinn á það að efna að þessu litla leyti kosningaloforð Framsóknar mætti vera 80 milljarðar. Punktur. Draga síðan frá það sem fólk hafði fengið í niðurfellingu í 110%-leið, sértækri skuldaaðlögun og meira að segja stuðning af því tagi sem fólk hafði fengið eins og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Á það var strax bent og hv. þm. Árni Páll Árnason sem, eins og ýmsir fleiri, gjörþekkti þessar aðgerðir á síðasta kjörtímabili — hafandi verið ráðherra stærstan hluta þess tíma sem við vorum í því þjarki að semja um þær við banka og lífeyrissjóði — benti strax á að menn yrðu að hafa í huga að útfærsla ýmiss konar skuldalækkunaraðgerða og eftirgjafar af hálfu fjármálastofnana hefði verið mjög mismunandi; og hvernig ætluðu menn þá að passa að menn fengju sambærilega meðferð? Það er vandinn hér. Nú loks hefur það runnið upp fyrir mönnum í október — það er komið einn mánuð fram yfir það þegar tilkynna átti um niðurstöðuna, ekki satt, reikniverkið átti fyrst að birtast í septemberlok ef ég man rétt — nei, þá eru frádráttarliðirnir ekki á hreinu. En þeir verða að vera á hreinu vegna þess að verkefnisstjórinn getur ekki ræst tölvuna og látið hana reikna út og ekki rétt fjármálaráðherra skrúfjárnið til að stilla gangverkið fyrr en þetta er allt á hreinu, vegna þess að einhverjir gætu fengið of mikið eða of lítið ef frádráttarliðirnir eru ekki á hreinu.

Ég verð að taka undir það að ég hef óskaplega litla sannfæringu, hafandi þó ekki önnur gögn en frumvarpið og greinargerð þess, sem er afskaplega rýr, sem útskýrir þetta ekki á nokkurn hátt með einu einasta dæmi, með því að nefna bara einhverjar tilteknar skuldaaðgerðir í bönkum og segja: Þetta var gert svona og hinsegin svona og við viljum að þetta gildi eins. Það er ekki gert. Hér er bara fjallað almennum orðum um að þarna geti verið svona vandi sem þurfi að taka á.

Og lögfræðingarnir hafa ekki komist að öflugri niðurstöðu en þeirri að segja, með leyfi forseta:

„Þá skal önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr.“ — þ.e. þeir sem gerðu slíkt, „framkvæmdu frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. og ekki telst til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, dregin frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr.“ — sem sagt dregin frá leiðréttingu.

Hvað þýða þessi orð: „önnur almenn lækkun eða niðurfelling“? Þýðir það önnur almenn lækkun eða almenn niðurfelling? Á orðið almennt að fylgja niðurfellingu líka en ekki bara lækkun? Eða getur þar verið um nánast einstaklingsbundnar aðgerðir banka gagnvart einhverjum einstökum viðskiptavinum að ræða? Hvað þýðir almennt? Hvað þarf aðgerð að hafa verið almenn? Er nóg að 10 manns innan bankans hafi fengið nákvæmlega þetta form á aðstoð, eða þurfa það að vera 1.000?

Þetta er óskaplega fljótandi, frú forseti. Auðvitað mun hin mæta nefnd fara eins vel yfir þetta og hún getur. En ég er ekki viss um að menn hafi höndlað sannleikann hér. Það er eins gott að þetta mistakist þá ekki. Að því leiðir ekkert annað en bullandi málaferli; og þetta er enn snúnara vegna þess að þetta snýr ekki bara að einum einstaklingi sem telur sig ekki fá það sem honum hafi borið, heldur er það þannig að ef það kemur í ljós eftir á að einhver hópur fékk umfram það sem til stóð þá hefur hann rýrt hlut allra hinna. Það gerist í gegnum það þegar fjármálaráðherra fer með skrúfjárnið og stillir gangverkið þegar hann býr út leiðréttingarvísitöluna. Það lítur út fyrir að menn eigi rétt á meiru en þeir hefðu svo í raun og veru átt til að aðgerðin væri sambærileg verður hún dýrari en ella þegar þetta verður reiknað út og þá lækkar fjármálaráðherra vísitöluna til að þetta fari ekki yfir 80 milljarða.

Einhvern veginn svona er í pottinn búið svo ævintýralegt sem það er. Auðvitað er alltaf vandasamt að útdeila almannafé, það þekkja allir sem eitthvað hafa fengist við að semja reglur um slíkt. En það er auðvitað enn þá vandasamara að eiga við það þegar menn eru í svona aðgerð að senda fólki nánast peninga heim til þess að lækka hjá sér skuldirnar, ekki vegna þess að það eigi á grundvelli þess að eiga börn rétt á barnabótum eða einhverju sem er skýrt og afmarkað og algjörlega bundið í lög; nei, bara vegna þess að menn ákváðu bara að setja 80 milljarða í að lækka holt og bolt höfuðstól verðtryggðra fasteignaveðlána og lenda svo í hinum mestu vandræðum með að búa eitthvert regluverk utan um það.

Frú forseti. Við skoðum þetta sjálfsagt eins og áður sagði. Ég býst við að skírskotunin til þess að viðkomandi niðurfelling hafi ekki myndað skattskyldar tekjur sé hjálpleg í þessum efnum. Það var úrræði sem gripið var til á þessu kjörtímabili þegar ekkert var gert. Það var að ákveða að öll svona almenn leiðrétting skulda, sem sérstaklega einstaklingar fengju upp að einhverjum mjög háum mörkum, að ekkert skyldi átt við það að reikna hana til tekna og taka af henni skatt. Það var nú til dæmis þannig búið í haginn fyrir það að lánardrottnar almennings gætu aðstoðað þá á þessum erfiðleikatímum og það lægi fyrir að ríkið mundi ekki gera neinar kröfur í þeim efnum. Kannski getur skatturinn þar af leiðandi, hafi hann þurft að glíma við það að flokka mismunandi skuldaúrræði einstakra fjármálastofnana niður í þær sem skyldu meðhöndlast þannig og aðrar sem skyldu ekki gera það, verið hjálplegur í þessum efnum. Ég veit það ekki. Það má auðvitað fá um það upplýsingar.

Best hefði mér nú þótt, frú forseti, ef stjórnarflokkarnir hefðu komið hingað til okkar og til dæmis bara frestað framkvæmdinni í (Forseti hringir.) þrjá mánuði og sagt að þeir væru farnir að hugsa sig um. Það hefði þá verið einhver örlítil glæta í (Forseti hringir.) haustmyrkrinu hvað það varðar.