144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það var ekki laust við að maður gleddist við að sjá þetta þingmál á dagskrá þingsins. Leiðrétting á aðgerðinni miklu og sérstaklega hvað varðaði frádráttarliði. Mér kom auðvitað fyrst í hug að Framsóknarflokkurinn hefði ákveðið að falla frá þeim fullkomnu svikum sínum við kjósendur að hafa ákveðið eftir kosningar að draga af þeim þær aðgerðir sem þeir sögðu áður að hefðu engu máli skipt í leiðréttingunni. Framsóknarflokkurinn fór hér um héruð og lofaði fólki leiðréttingu lána sinna og orðaði það í engu fyrir kosningar að draga ætti frá þeirri leiðréttingu einhverjar aðgerðir sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði staðið fyrir, enda töldu þeir ekki að það hefðu verið miklar aðgerðir. Raunar var það þannig að þingmenn Framsóknarflokksins fóru um í útvarpssal og sjónvarpssal aftur og aftur, æ ofan í æ, formaður flokksins, varaformaður flokksins, formaður þingflokksins, hver silkihúfan upp á annarri, og sögðu að 110%-leiðin hefði hvergi nærri dugað þeim sem fengu leiðréttingu eftir henni. Það fólk sem hefði farið í gegnum 110%-leiðina hefði alls ekki fengið fullnægjandi úrlausn mála sinna heldur væri sá hópur sem væri sennilega í hvað mestum vandanum, í brýnastri þörf fyrir aðstoð og úrræði sem mundu bíða þeirra eins og annarra þegar Framsóknarflokkurinn hefði verið kosinn til þings. Svo valdi Framsóknarflokkurinn sérstaklega þennan hóp sem hann hafði gert að miklu umfjöllunarefni og nærst á neyð hans og smurt kosningavél sína á neyð fólksins sem hafði farið í gegnum 110%-leiðina með fagurgala sem aldrei stóð til að efna. Eftir kosningar steig fram hv. þm. Frosti Sigurjónsson, núverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og tilkynnti þeim sem voru búnir að skila atkvæðaseðlinum í kjörkassann að nú hefði Framsóknarflokkurinn ákveðið að fólkið sem hefði farið í gegnum 110%-leiðina væri svo vel sett að það ætti að draga alla þá leiðréttingu af því og það fengi ekki neitt. Þetta var meðferðin á því fólki sem á sennilega við mesta skuldavandann að etja í landinu. Ég hélt fyrst þegar ég sá þessa fyrirsögn á dagskrármálinu í dag að Framsóknarflokkurinn hefði iðrast svona sárlega þessara hróplegu svika og væri hér kominn til þess að draga til baka þá frádráttarliði sem hann gat í engu um fyrir kosningar, ætlaði að koma almennilega fram við þetta fólk sem hann sat í útvarps- og sjónvarpssal og ræddi um neyðina hjá og nauðsyn aðgerða fyrir kosningar en dró svo aðgerðirnar sem ráðist hafði verið í fyrir þennan hóp beint frá leiðréttingunni sem lofað var.

En það var ekki efni málsins. Þegar það var ljóst vonaðist ég til þess að það væru einhverjar aðrar leiðréttingar á þessari vondu útfærslu á skuldaleiðréttingu sem hér væri um að ræða, það væru kannski einhverjir frádráttarliðir sem gerðu þetta félagslega sanngjarnara. Ég held nú að flestir þeir sem hafa talað fyrir skuldaleiðréttingum í gegnum tíðina hafi til dæmis talið ástæðu til þess að afmarka hópinn sem hennar nyti þannig að eignamesta fólkið í landinu, mesta hátekjufólkið í landinu væri kannski ekki sá hópur sem helst þyrfti að fá fé úr ríkissjóði, sérstaklega ekki þegar verið væri að draga skuldaleiðréttingar frá þeim hópum sem verst stæðu, t.d. þeim sem skulda 10% meira en þeir eiga og hafa farið í gegnum 110%-leiðina. Það væri til að mynda engin ástæða til þess að vera að greiða fólki úr ríkissjóði sem stendur svo vel að borga stóreignarskatta, af því að það á svo miklar hreinar eignir. Það væru einhverjir slíkir frádráttarliðir sem væru að koma hér inn í útfærsluna, en það var þá ekki heldur. Þetta er aðeins eitthvert tæknilegt klúður sem þarf að leiðrétta af því stjórnarflokkarnir undirbjuggu ekki frumvarpið um 80 milljarða kr. ráðstöfun úr ríkissjóði betur en svo að það þarf að koma inn með sérstakt þingmál til þess að leiðrétta það nokkru síðar.

Það er náttúrlega nokkur áfellisdómur á það hvernig málið var í fyrsta lagi undirbúið og síðan á vinnuna eins og hún var í þinginu ef málum er þannig komið að það þurfi að grípa til þeirra ráðstafana. Þá er auðvitað tilefni til þess að ræða málið og velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að nota ferðina og reyna að gera einhverjar frekari breytingar á því.

Það er og hlýtur að vera stjórnarflokkunum umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að fara að ábendingum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem Framsóknarflokkurinn a.m.k. hefur iðulega vísað til að hann vilji hlýða á og fylgja í flestu ef ekki öllu, um það að rétt sé að fá niðurstöðu í dómsmál um verðtrygginguna áður en ráðist verði í aðgerðina sjálfa. Dómsniðurstaða sem félli skuldurum í vil mundi auðvitað breyta því landslagi sem við erum hér að fást við með mjög afgerandi hætti og væri að mörgu leyti skynsamlegt þar sem við erum farin að sjá til lands í þeim dómsmálum í mjög náinni framtíð, án þess að ég ætli að segja að skuldarar muni á endanum vinna það mál.

Við hljótum líka að ræða það hvernig að þessu máli er staðið og þá staðreynd sem orðin er síðan málið var flutt í þinginu að það er komið í ljós með hvaða hætti á að fjármagna þessa skuldaleiðréttingu. Við höfum séð frumvörp um aðra hluti síðan sem varða bæði tekjur ríkissjóðs og gjaldahlið ríkissjóðs og sýna að auðvitað er verið að grípa til aðgerða, bæði í niðurskurði á vaxtabótum til þess að fjármagna þessa aðgerð og í hækkun á matarverði í landinu til þess að fjármagna þessa aðgerð, sem gerir það að verkum að heimilin í landinu eru sannarlega ekki betur stödd eftir en áður.

Það má þó færa rök fyrir því að sum heimili séu það og þau eru það vissulega, en það er sennilega fremur takmarkaður jöfnuður sem í því felst vegna þess að eins og fram hefur komið er þetta stuðningur við skuldug heimili upp á um 18 milljarða á ári í fjögur ár, 72 milljarða samtals hvað höfuðstólnum viðvíkur.

Það sem við sjáum síðan á móti er að þessar greiðslur eru í engu tengdar eignum fólks eða tekjum. Þær fá hátekjumenn og stóreignafólk jafnt og hinir. Á sama tíma er hins vegar frá árinu 2011 búið að draga úr vaxtabótum sem eru sérstaklega greiddar þeim sem litlar eignir hafa og meðaltekjur eða lægri tekjur. Það er búið að draga úr þeim greiðslum um 14 milljarða, nærri því sömu upphæð. Það er því búið að draga úr greiðslum sem miða að því að jafna stöðu fólks í samfélaginu, miða að því að styðja og styrkja þá sem á því þurfa að halda, eru með lágar tekjur eða meðaltekjur, barnafjölskyldur, skuldug heimili, en á sama tíma er verið að ráðstafa 18 milljörðum út til heimila alveg án tillits til eigna og tekna. Þeir sem eru ekki í neinum skuldavanda og eru með fínar tekjur og góða eignastöðu fá ef eitthvað er meira en hinir. Þetta er sannarlega félagslegt réttlæti á haus.

Nógu var þetta nú slæmt, en þá trommar Framsóknarflokkurinn upp með það hér í þinginu að það eigi að hækka matarverð í landinu um 5%. Það er að vísu byggt á fullyrðingum hæstv. fjármálaráðherra um að það kosti aðeins 245 kr. að borða, eins og landskunnugt er orðið. Það veit það flestur framsóknarmaðurinn a.m.k. að það er þannig í rekstri venjulegs heimilis að matarliðurinn og húsnæðisliðurinn eru svipaðir. Raunar er matarliðurinn umtalsvert meiri í útgjöldum heimila en afborganir af lánum. Þessi 72 milljarða leiðrétting er lækkun á skuldum heimilanna í landinu um 5% — lækkun á skuldum heimilanna um 5% — sem þýðir léttingu á greiðslubyrði heimilanna í landinu af skuldunum um 5%. Síðan er lagður á 5% matarskattur á móti. Það þýðir að fyrir meðalfjölskylduna hækka útgjöldin meira en þau lækka því að hún er verr sett með 5% hækkun á matarskattinum og 5% lækkun á skuldunum, sennilega í flestum tilfellum.

Hin stóra leiðrétting átti að vera 300 milljarðar en varð nú ekki nema að 1/4 að veruleika, 20% urðu að 5%, þessi milljón á hvert heimili sem sækir um að meðaltali á fjórum árum, 250 þúsund á ári, um það snýst aðgerðin, 70 þúsund heimili hygg ég að hafi sótt um þessa 72 þúsund milljónir. Þetta er ekki einungis langt frá því sem lofað var og vegur í sjálfu sér tiltölulega litlu meira en umtalsverðar vaxtabætur gerðu til dæmis á árinu 2011, heldur er líka farið að grípa til sérstakra fjáröflunaraðgerða á reikning þessara sömu heimila með því að hækka skatta á matvöru og aðrar nauðsynjar um 5% beint.

Þegar ég segi aðrar nauðsynjar erum við ekki farin að tala um hækkunina á hitanum. Við erum ekki farin að tala um hækkanir á bókum eða blöðum og öðrum þeim þáttum sem er að finna í lægra virðisaukaskattsþrepinu.

Ég hygg að það hljóti að vera farnar að renna nokkuð tvær grímur á þingmenn Framsóknarflokksins til hvers þeir komu hingað í raun og veru þegar niðurstaðan er 1 millj. kr. lækkun skulda, sem er meðalútkoman fyrir hvert heimili, það þýðir um 4–7 þús. kr. lækkun á greiðslubyrði á mánuði. En matarskatturinn hækkar um 5%. Þannig að ef fólk er með einhver matarútgjöld að gagni er það verr settara eftir heldur en áður.

Þá spyr maður: Er ekki ástæða til þess að endurskoða þessi áform í heild sinni? Er ekki nær, úr því þetta er svona lítið sem á að verja til skuldaleiðréttinga, 18 milljarðar á ári, að útdeila þeim með tekjuviðmiðum og með eignaviðmiðum eins og við höfum gert í vaxtabótunum þannig að þessi takmörkuðu fjármunir komi best til góða þeim sem mest þurfa á því að halda, þeim sem eru í skuldavanda, og falla frá því að hækka matarverðið og aðrar nauðsynjar á öll heimili í landinu um þessar gríðarlegu fjárhæðir sem Framsóknarflokkurinn er nú að boða?