144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:11]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Hv. þingmaður velti fyrir sér hækkun á fasteignamati sem bendir til þess að á móti þeim skuldum sem heimilin hafi hafi eignahliðin hækkað. Væntanlega er á bak við þessar vangaveltur sú skoðun að ekki beri að bæta mönnum tjón ef þeir hafi orðið fyrir ávinningi annars staðar.

Þetta var vissulega eitthvað sem menn skoðuðu, en eins og margoft var tekið fram var verið að fara í almenna aðgerð, almenna leiðréttingu, vegna stökkbreytingar á höfuðstól verðtryggðra fasteignaveðlána. Ekki hefði verið hægt að gera það með þessum hætti ef það hefði átt að koma mismunandi niður eftir því hvort menn bjuggu úti á landsbyggðinni, niðri í miðbæ eða annars staðar. Það hefði verið óframkvæmanlegt vegna flækju og eflaust hefði það líka verið óréttlátt. Enda er það þannig að þegar menn fá leiðréttingu á tjóni er ekki litið til annarra hluta í þeim efnum.

Svo verð ég að játa að ég náði ekki alveg hinum tveimur spurningunum sem hv. þingmaður vísaði til mín.