144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau dómsmál sem eru í gangi núna snúast dálítið um það hvort samningsliðir verðtryggingarinnar standist, hvort samningsaðilar eða lántaki hafi fengið að semja um verðtryggingarlið samningsins. Ef lántaki tekur skuldaleiðréttingu er hann væntanlega búinn að semja um þann lið og verðtryggingarliðurinn greinilega löglegur í því tilviki. Ef sá dómur fellur að samningaleiðin, þegar lánið var upprunalega tekið, hafi ekki verið rétt og sá liður fellur niður þá eiga þeir ekki rétt á því að fá neinar bætur í tengslum við dóminn — þ.e. ef þeir hafa tekið skuldaleiðréttinguna — af því að þeir eru búnir að semja um verðtryggingarleið samningsins. Það er ákveðin ábending um að það er dálítið óljóst hvað menn geta fengið og misst.

Annars, hv. þingmaður: Fáum við að vita hver reikniformúlan er við endurútreikning lánanna? Fær einstaka lántaki sundurliðun á hvað er plús og hvað er mínus við þá upphæð sem hann fær? Fáum við að sjá dreifingu þeirrar leiðréttingar eftir tekjum, eignum og leiðréttingarupphæð svona yfirleitt þannig að við sem skattgreiðendur fáum að vita hverjum við vorum að borga?