144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara smááhyggjur af því að ef fólk tekur skuldaleiðréttingunni sé það að fullnægja samningsatriðinu um verðtryggingu samninganna. Eitt af þeim dómsmálum sem eru í gangi núna snýst um það hvort framsetning samningsins, og sérstaklega þess atriðis sem varðar verðtryggingu, hafi verið rétt og hvort lántaki hafi fengið að semja um þann lið. Ef lántaki hefur ekki fengið að semja um þann lið er samningurinn ekki gildur samkvæmt samningslögum. Ef lántaki tekur skuldaleiðréttingu er hann búinn að semja um liðinn og er þá ekki gjaldgengur í nokkurn dóm sem mundi mögulega falla um það að þetta væri ólögleg leið til að semja um verðtryggingu.