144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð sína á þessu máli. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hann um.

Í fyrsta lagi kemur fram í fylgiskjali með þessari tillögu, sem er umsögnin frá verkefnisstjórninni, að það hafi í raun og veru verið starfinu til trafala að ekki hafi verið skipaðir faghópar eða að menn hafi ekki fullmannað þá í tæka tíð. Mig langar því að spyrja: Hver er staðan á því máli, er búið að fullmanna þessa faghópa núna? Ef já, hvenær var það gert? Þá langar mig líka að spyrja hvernig stóð á því að vinna þeirra var ekki fjármögnuð, eins og fram kemur í greinargerð.

Þetta er í fyrsta lagi af því að verkefnisstjórnin tekur það greinilega fram að þetta hafi seinkað vinnu hennar. Það skiptir máli að hún sé fullmönnuð og með þann stuðning, virðulegi forseti, sem kveðið er á um í lögum. Þar er kveðið mjög skýrt á um að faghópar skuli skipaðir. Gott ef ég gæti fengið svar við þessu.

Í öðru lagi: Hingað til hefur alltaf verið talað um virkjanirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár sem seríu. Í seinni tíð, eftir að Urriðafossvirkjun varð umdeildust þeirra, hafa menn talað um að Hvamms- og Holtavirkjun héngju saman. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í það. Hvaða áhrif hefur þetta á framkvæmdaáætlanir orkufyrirtækisins sem hefur viljað og sótt í að fá að nýta þá orku sem úr ánni gæti komið í gegnum þessar virkjanir? Þar sem menn hafa ákveðið að koma með (Forseti hringir.) eina virkjun hingað inn þá veltir maður fyrir sér hvort fyrirtækið sé orðið sátt við það að (Forseti hringir.) hugsanlega verði bara þessi eina virkjun að veruleika.