144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni bókun fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytis í verkefnisstjórn, sem fylgir hér með tillögunni í greinargerð. Sá fulltrúi gagnrýnir þann texta sem birtist með tillögunni, þ.e. að aðeins sé miðað við að skilgreina þurfi hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska. Þá er ég að vitna til þess hvað þurfi að fara yfir til að hægt sé að taka afstöðu til Holtavirkjunar, því að við getum ekki tekið þessa framkvæmd algjörlega úr samhengi við hinar tvær virkjanirnar.

Fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis bendir á að þarna sé í raun bara verið að ætlast til þess að skilgreint sé hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að fara í en ekki að beðið verði eftir niðurstöðum, þ.e. ekki hvaða þekkingu rannsóknirnar skuli að lágmarki skila eða hvaða óvissa í niðurstöðum sé ásættanleg að mati framkvæmdaraðila. Mér finnast það áhugavert, sem þarna er bent á, að að sjálfsögðu þurfi að liggja fyrir sæmileg vissa um hvað eigi að koma út úr viðbótarrannsóknum, ekki síst vegna þess að virkjanirnar eru metnar út frá ólíkum þáttum og þar á meðal efnahagslegum.

Ef ætlunin er að fara í stórar og miklar og dýrar mótvægisaðgerðir til að tryggja áfram laxagengd í Þjórsá, sem er auðvitað stóri þátturinn þegar við ræðum þessar virkjanir, þá kemur mjög skýrt fram að án allra mótvægisaðgerða er það niðurstaða þeirra sérfræðinga sem um málið hafa fjallað að virkjunarframkvæmdir mundu líklega leiða til útdauða laxastofna í ánni. Hins vegar er ekki búið að meta það inn í heildarumfjöllunina hvað þessar mótvægisaðgerðir mega kosta og, eins og hér er sagt, hvað sé ásættanleg óvissa. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hans viðhorf í þessum málum, því að þetta snýst kannski ekki bara um þá tillögu sem við ræðum hér, þetta snýst um grundvallarhugmyndafræði þeirrar aðferðar sem verið er að beita hér, þ.e. rammaáætlunar.