144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasttalda atriðið, viðræður við veiðiréttarhafa, þá hef ég ekki upplýsingar um hvort þær hafi átt sér stað. Ég get því ekki svarað því en ég skal komast að því og koma upplýsingunum til hv. þingmanns.

Eftir að ákveðinn kostur hefur verið settur í nýtingarflokk þá á eftir að kanna fullt af hlutum, m.a. umhverfismat, nákvæmari hönnun og þar með arðsemisútreikninga á viðkomandi kosti, áður en menn taka ákvörðun um virkjun. Þess vegna er það að flokka mismunandi kosti í biðflokk, nýtingarflokk, verndarflokk — og sérstaklega varðandi nýtingarflokkinn — alls ekki lokaákvörðun um það hvort af virkjun verður eður ei. Ég tel að í meðförum þingsins muni þessar spurningar án efa koma upp, bæði verði þeim varpað til orkufyrirtækisins en ekki síður til veiðiréttarhafanna, hvernig vinnunni hafi verið háttað gagnvart þeim. Ég skal reyna að komast að þeim upplýsingum sem ég get varðandi þann þátt.