144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu orð hæstv. ráðherra er kannski röng leið að fara fyrst fram á að virkjunarkostur verði settur í nýtingarflokk og skoða síðan hvort hann borgi sig eða ekki. Er ekki betra að biðja fyrst um endurreikning og taka svo ákvörðun um hvort við séum að fara að færa kosti á milli flokka?

Annars vildi ég ítreka: Hvert á þessi orka eiginlega að fara? Er gert ráð fyrir því að orkan úr Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun fari í sömu verkefni? Ég skildi ekki alveg nægilega vel svarið við tengingunni áðan sem hv. þingmaður spurði um.

Annað sem ég vildi ítreka varðandi efnahagslegu atriðin: Hversu gamalt er kostnaðarmatið? Gögnin sem ég sá voru frá því 2003 og fjalla um hagnað þess að virkja eða virkja ekki. Síðan þá hefur ferðamannaiðnaðurinn blómstrað og sá hluti af ágóða þess að virkja ekki er orðinn mun stærri. Þarf ekki að endurskoða það aðeins?

Einnig væru þessar virkjanir ansi nálægt byggð. Það er nýlunda. Hversu mikið tillit er tekið til þeirra sem búa nærri þessum virkjunarsvæðum? Hversu hátt vegur álit þeirra þegar metið er hvort það verði haldið áfram með þessar virkjanir eða ekki?