144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að taka undir þau sjónarmið sem fram komu hér áðan hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Mér finnst þetta undarleg ráðstöfun og þá ekki síst í ljósi þess sem hún nefndi, að við verðum að reyna að horfa heildstætt á ýmis ólík nýtingarform, líka verndina. Það hefur einfaldlega verið þannig að manni hefur fundist þessi ríkisstjórn ekki leggja eins mikla áherslu á þann hluta málsins, hún horfi frekar til nýtingarþáttarins. Það að menn telji að rammaáætlun eigi heima í atvinnuveganefnd endurspeglar það að mjög miklu leyti.

En þá segi ég: Hvers vegna stoppar þingið þetta ekki, þ.e. yfirstjórn þingsins? Eitt er að ráðherrar hafi einhverjar óskir af því að einhver ákveðin leið sé þægilegri fyrir þá en það er annað að yfirstjórn þingsins skuli ekki gera við þetta athugasemd og beina ráðherranum með málið til réttrar nefndar. Það er algjörlega augljóst þegar við skoðum hvert hlutverk nefndanna er að þetta mál á heima í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held líka, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að menn ættu ekki að óttast það þó að málið færi þangað. (Forseti hringir.) Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við getum komið stórum málum í góðri sátt þar í gegn.