144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér úr 13. gr. þingskapa:

„Atvinnuveganefnd.

Nefndin fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.“

Um umhverfis- og samgöngunefnd:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt. Enn fremur fjallar nefndin um samgöngumál, þ.m.t. framkvæmdaáætlanir, byggðamál svo og málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskiptingu þess og ríkisins.“

Það er nokkuð augljóst í mínum huga að málið getur heyrt undir báðar nefndirnar. Nú er fyrst og fremst verið að tiltaka átta kosti sem hér voru til skoðunar. Einn kostur er síðan færður í nýtingarflokk, það er ekki verið að færa neinn kost í verndarflokk. Á grundvelli þess er að mínu mati eðlilegt að málið hljóti umfjöllun í atvinnuveganefnd.