144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að taka undir með þeim sem hér hafa talað og gagnrýnt hvert þetta mál á að fara. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver innanmein á stjórnarheimilinu valdi því að einhver átök séu í gangi og menn séu að velta fyrir sér hver eigi málin og hvernig eigi að fara með þau. Þetta er kannski akkúrat dæmi um það. Hér er verið að rífa mál í sundur, taka þau úr þeim farvegi sem þau hafa verið í. Eins og hér hefur komið fram hefur þetta ekkert með það að gera að ekki sitji gott fólk í atvinnuveganefnd. Þekkingin er hins vegar orðin til í umhverfis- og samgöngunefnd og það ber ekki að draga í efa.

Ég tek hins vegar undir með síðasta ræðumanni, mér finnst að þingið eigi að grípa inn í og beina málinu í réttan farveg. Það getur ekki annað verið en að við viljum þessum málaflokki það að á hann sé horft heildstætt. Það hlýtur að vera það sem við viljum gera en ekki, eins og kom fram áðan, að á einhverjum tímapunkti stöndum við frammi fyrir því að samkynja mál gætu farið í hvort sína nefndina. Það getur ekki talist eðlilegt.