144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vandi þessa málaflokks hefur verið sá í gegnum tíðina að hann hefur einkennst af togi ólíkra skoðanahópa og ólíkra hagsmunahópa. Þess vegna er sú aðferðafræði sem felst í rammaáætlun mjög góð leið til þess að leysa mjög erfiðar og langvarandi deilur milli fólks með mjög ólíkar skoðanir og áherslur í þessum efnum, að setja allan málaflokkinn á borðið, fjalla um alla virkjunarkosti í einu, skipta þeim niður í ólíka flokka og freista þess þannig að ná sátt sem getur varað í einhvern tíma, helst að eilífu.

Með því að taka hér einn virkjunarkost upp á borðið og ætla að fjalla um hann sérstaklega í atvinnuveganefnd er ekki verið að vinna eftir þeirri aðferðafræði sem menn höfðu sett sig niður á. (Forseti hringir.) Þvert á móti er verið að draga málið og halda áfram þeirri bútasaumsteppaaðferð sem einkennt hefur þennan málaflokk allt of lengi.