144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er nefnilega stóra málið, þetta mál snýst ekki um virkjunaráætlanir, þetta snýst um vernd og nýtingu landsvæða. Á þeim forsendum tel ég að það eigi betur heima í umhverfis- og samgöngunefnd. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi okkur rökstuðning fyrir því, að hann rökstyðji það miklu betur en að lesa upp úr þingsköpum að málið gæti farið í atvinnuveganefnd, að ekkert mæli á móti því í þingsköpum. Mér finnst hann þurfa að rökstyðja það miklu betur fyrir fólkinu í landinu og okkur hér inni út af hverju hann telur málinu betur fyrir komið í atvinnuveganefnd.

Ég vil gjarnan heyra þann rökstuðning. Treystir hann ekki því fólki sem á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd til að vinna áfram í þessum málaflokki? Er þetta vantraust á hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar? Mér finnst það ekkert hafa komið fram í máli ráðherra og mér finnst með ólíkindum að hann ætli að fara að efna til ófriðar í þessum málum. Nóg er nú samt.