144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér var rætt hvernig farið var með þetta mál á síðasta kjörtímabili og því þykir mér rétt að útskýra hvers vegna sams konar tillaga fór þá fyrir umhverfisnefnd. Það var einfaldlega vegna þess að samkvæmt samkomulagi og breytingum á Stjórnarráðinu var málið á leið yfir á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra. Það þótti eðlilegt að umfjöllunin í þinginu endurspeglaði þá staðreynd. Nú segir hv. þm. Jón Gunnarsson að færa eigi þetta til baka vegna þess að fyrirkomulagið hafi verið gagnrýnt á síðasta kjörtímabili. Hvers vegna stendur þá þessi ráðherra hér og flytur málið? Hluti af þeirri breytingu að flytja málaflokkinn til umhverfisnefndar á síðasta kjörtímabili var sú staðreynd að hann var að fara yfir til umhverfis- og auðlindaráðherra. Hefði þá ekki verið eðlilegra að iðnaðarráðherra stæði hér, ef menn ætluðu að færa þetta allt í fyrra horf, og flytti þetta mál? Þá væru menn að fara með allt málið í gamla farveginn, draga það allt til baka.

Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi og ég er mjög hissa á hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að standa fyrir slíku. Ég er mjög hissa á því, nema hann sé með þessu beinlínis að segja okkur að hann líti ekki á þetta sem verndaráætlun heldur eingöngu sem nýtingaráætlun. Það kom skýrt fram hér áðan hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni að það væri hans sjónarmið að nýtingin ætti heima hjá þeim. En þá er hægt að upplýsa þingmenn um það, þá sem virðast ekki vita það, að löggjöfin heitir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Um það snýst heila málið. Krafa okkar um að þetta fari í umhverfisnefnd er ekki ósanngjarnari en svo að hún byggir á þessari staðreynd. Ekki er hægt að halda því fram að menn megi þetta bara af því að þeir geti það og hafi verið á móti flutningnum á síðasta kjörtímabili. Þá gleyma þeir að láta það fylgja að allur málaflokkurinn fór yfir í annað ráðuneyti.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að láta ræðu mína hér fjalla um þetta heldur ætlaði ég að vera á heldur jákvæðari nótum vegna þess að við í Samfylkingunni erum mjög ánægð með rammaáætlunina og hvernig hún hefur almennt verið að þróast og líka það að nú lítur út fyrir, eða hefur alla vega litið út fyrir það hingað til, að okkur sé að takast að nýta þetta verkfæri til sátta í þeim málum þegar við ætlum að nýta auðlindir landsins ýmist til verndar eða orkuframleiðslu. Okkur hefur ekki veitt af því. Það er svo stutt síðan þjóðin klofnaði í herðar niður í deilum yfir einstaka svæðum á landinu og því er þetta verkfæri gríðarlega mikilvægt og öflugt til að við getum horft heildstætt á landið og heildstætt á orkunýtingarkosti og vegið og metið hagsmuni út frá ákveðnum kríteríum sem menn geta nokkurn veginn stólað á.

Fyrirsjáanleiki skiptir líka gríðarlega miklu máli og að pólitískir duttlungar ráði ekki för heldur fagmennska og að okkur stjórnmálamönnunum sé rétt upp í hendurnar mat fagaðila á því hvernig best sé að raða þessum kostum en ekki þrýstingur ýmist heima í héraði eða úr einhverjum öngum samfélagsins, að við fáum góða faglega heildarmynd af málum og getum þar með tekið betri ákvarðanir. Fyrir það er ég mjög þakklát.

Virðulegi forseti. Það skiptir því máli að við gleymum því ekki að þetta er líka verndaráætlun. Ég er með nokkur atriði sem ég ætla að fá að nefna í þessari umræðu áður en málið fer til nefndar. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að umhverfis- og samgöngunefnd eigi að fá þetta mál til sín og ég vona að þingið líti málið sömu augum.

Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér að hingað til hefur verið litið á þessa virkjun, eins og ég kom inn á í andsvari áðan við ráðherra, sem hluta af seríu, þetta hefur verið þriggja virkjana sería í neðri hluta Þjórsár. Í seinni tíð hafa þær yfirleitt hangið saman tvær, þ.e. Holta- og Hvammsvirkjun. Mig langar þess vegna að spyrja kannski betur aðeins út í það og fá upplýsingar um það hvers vegna menn ákveða að koma með þessa einu inn. Af hverju ekki var beðið eftir því að menn lykju yfirferð yfir og rannsóknum á hinum kostunum. Hvað liggur á? Er Landsvirkjun, sem hefur verið með áætlanir um að nýta þennan kost, hugsanlega farin að sættast á að eingöngu þessi virkjun verði heimiluð og að það sé nægjanlega arðbært fyrir fyrirtækið að ráðast eingöngu í þá framkvæmd? Þá hefur hljóðið í þeim breyst vegna þess að það var alltaf forsenda að þær héngju saman, þessar þrjár. Eða er þetta merki um að menn sjái fyrir sér að hinar tvær komi með jákvæðum hætti frá verkefnisstjórninni og verði settar í nýtingarflokk? Það er ágætt að fá upplýsingar um þetta.

Ég vil líka gagnrýna almennt hvernig þessi ríkisstjórn hefur unnið með rammann og það endurspeglast ágætlega í þeirri umræðu sem á sér stað hér um það hvert málið eigi að fara, í hvaða nefnd. Hæstv. ráðherra kemur hér inn með mál sem snýr að því að færa kost til upp í orkunýtingarflokk en á sama tíma hafa menn í engu sett af stað það ferli sem mönnum ber lögum samkvæmt að ráðast í gagnvart verndarflokknum. Honum er bara ekki sinnt, ekki eru settir í það fjármunir. Þeim skýra texti sem er í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, um verndarflokkinn, er í engu fylgt. Þar segir:

„Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar.“

Þetta er ekkert flókið. Og þetta var líka markmiðið með lögunum sem við ættum að vita, við flest sem erum hér inni núna að fylgjast með þessari umræðu og taka þátt í henni. Við tókum þátt í að setja þessi lög. Um það snerist þetta.

Það skiptir því máli að hæstv. ráðherra sinni jafn vel orkunýtingnarflokknum og verndarflokknum, vegna þess að þeir eru jafn mikilvægir. Ekki er hægt að velja eins og úr konfektkassa þann flokk sem maður hefur sjálfur mestan áhuga á. Við erum með lög sem þarf að fylgja. Ég hefði viljað sjá hjá hæstv. ráðherra að það kæmi með jafn afgerandi hætti inn og flutningur á virkjun úr biðflokki í orkunýtingu, sem ég ætla ekkert að vefengja að fagleg rök séu að baki. Ég hefði líka viljað sjá áætlun frá ráðherranum um það hvernig hann ætlaði að ráðast í friðlýsingu á grundvelli rammaáætlunar og verndarflokksins í henni. Við eigum alveg eftir að sjá það.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur og þess vegna vil ég líka, í ljósi umræðunnar sem varð hér um Norðlingaölduveitu á síðasta þingi, hugsanlega upptöku hennar eða breytingar á því máli öllu, nefna að ég er ekkert hissa á því að verkefnisstjórnin hafi þurft að taka sér tíma í að setja niður einhvers konar verklagsreglur eða taka ákvörðun um hvernig hún eigi að starfa þegar fráfarandi verkefnisstjórn skilar frá sér skýrslu sem greinir frá ákveðnum landsvæðum sem þau telja að eigi að ráðast í friðlýsingu á og eigi heima í verndarflokki, sem núverandi stjórnvöld segjast síðan ekki geta byggt friðlýsingarferlið á vegna þess að það vanti hnit eða það vanti að negla það betur niður nákvæmlega við hvaða svæði menn eiga. Þá er ekkert óeðlilegt að núverandi verkefnisstjórn staldri við og hugsi: Bíddu, getum við með einhverjum hætti sett þetta skýrar fram? Og þannig að menn geti ekki falið sig á bak við eitthvað slíkt og byggt á því þá ákvörðun að ráðast ekki í friðlýsingar eins og lög kveða á um? Það er mjög skiljanlegt, virðulegi forseti.

Ég tel brýnt að þetta mál fái góða umfjöllun í nefnd og enn og aftur ætla ég að ítreka tvennt. Í fyrsta lagi skiptir það máli fyrir framtíðina að þessi heildstæða sýn haldist og menn séu ekki að búta þetta niður með því að setja nýtingarþáttinn til einnar nefndar og verndarþáttinn til annarrar, heldur sé þetta allt á hendi (Forseti hringir.) umhverfisnefndar sem þá speglast á við ráðuneytið sem (Forseti hringir.) sem málið á heima í.