144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu.

Það var eitt lítið atriði sem mig langaði til að spyrja hana um, það er um laxagengdina. Áður en jökulár voru virkjaðar komu gífurleg flóð í þær á sumrin þegar voru hitar og rigningar og annað slíkt og það hefur sennilega verið mjög skaðlegt laxaseiðum fyrir um 100 árum. Síðan gerist það að jökulár eru virkjaðar og þá verða verstu jökulár að góðum laxveiðiám, eins og t.d. Jökla fyrir austan, eftir Kárahnjúkavirkjun, hún er orðin að góðri laxveiðiá sem hún var ekki áður.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það sæmilegt að nota þau rök að laxinn — sem varð til vegna virkjana í Þjórsá — eigi erfitt uppdráttar þegar einni virkjun er bætt við? Þarf maður ekki að líta á það hvernig laxastofninum reiddi af áður en hún var virkjuð yfirleitt? Það að virkja jökulár veldur því að setið sest niður í uppistöðulónum og áin verður ekki eins gruggug og svo jafnast náttúrlega allar þessar sveiflur sem fara illa með laxaseiði og laxagengd. Má þá ekki segja að þessar virkjanir hafi verið mjög til góðs fyrir laxagengd?