144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við sem erum hér stödd núna getum ekki annað gert en að meta stöðu laxfisksins eins og hún er nú í ánni. Það hafa komið fram áhyggjur vegna hennar í umsögnum sem hafa borist vegna þessa máls. Til að mynda hefur NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, gert ítarlegar athugasemdir og einnig einstaka veiðiréttarhafar vegna þess að landeigendur við Þjórsá hafa unnið mjög markvisst að því að auka verðmæti laxastofnsins og stuðla að því að hann geti dafnað í ánni, til að mynda með laxastiganum 1991 sem var settur hjá fossinum Búða og stórbætti laxagengd á þessu svæði.

Að sjálfsögðu er heilmikil saga á bak við laxagengd í Þjórsá en við hljótum að meta stöðuna eins og hún er núna, ekki satt, hv. þingmaður? Við finnum að það eru miklar áhyggjur af því hvaða áhrif virkjanir og sú virkjun sem hér um ræðir gætu haft á lífsskilyrði laxastofnsins. Síðan en ekki síst, eins og ég benti á áðan, hefur heldur ekki verið metið nákvæmlega hvað mótvægisaðgerðir, sem munu vonandi tryggja áfram laxagengd, munu kosta og hver raunveruleg áhrif þeirra munu verða. Þannig að þarna er mikil óvissa.

Ég spyr í þessari umræðu: Hversu mikla óvissu um þessi mál teljum við ásættanlega?