144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið svo langt sem það nær. Málið er að laxastiginn sem var byggður þarna og hv. þingmaður nefndi var fjármagnaður af Landsvirkjun, af þeim sem virkjaði en ekki landeigendum. Það er spurning hvort landeigendur eigi að borga fyrir það hvað þessar virkjanir hafa bætt lífsskilyrði laxins frá því sem var áður en þær voru settar í gang fyrir einni öld eða svo, eða á síðustu öld.

Mér finnst dálítið undarlegt að menn setji það núna sem eitthvert aðalatriði að þarna sé laxastofn að fara til spillis þegar sá stofn hefur dafnað vegna þess að áin hefur verið virkjuð. Það er búið að jafna rennslið, það eru ekki eins mikil og ofsafengin flóð í ánni og áður og setið hefur sest.

Þetta er því spurning um hagsmuni, hvort landeigendur og þeir sem njóta veiðiréttar eigi þá ekki jafnvel að borga fyrir það þegar er virkjað og áin bætt. Ég nefni sérstaklega Jöklu. Þar hafa skilyrði batnað, mér er ekki kunnugt um að þar hafi verið laxveiði áður, en nú er hún orðin að góðri laxveiðiá. Sama er með Blöndu og fleiri ár þar sem virkjanir hafa í raun stórbætt lífsskilyrði laxins og stórbætt veiðimöguleika landeigenda.