144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þær skýrslur sem gefnar hafa verið út, t.d. um Hellisheiðarvirkjun og þá arðsemi sem menn hafa séð í því verki. Eins nefni ég Kárahnjúkavirkjun þar sem menn hafa einfaldlega verið langt undir áætlunum. Þetta er allt eitthvað sem hefur komið fram opinberlega og því miður er það þannig að við tökumst mjög harkalega á í stjórnmálunum um virkjanir sem skila okkur síðan allt of litlum arði. Því miður er það þannig og þá sérstaklega þessar nýjustu, stóru virkjanir sem ég nefndi þar sem arðsemin hefur verið langt undir væntingum og ekki einu sinni dugað fyrir fjármagnskostnaði, til dæmis í tilfelli Hellisheiðarvirkjunar, eins og fram kom í mjög nýlegri skýrslu um hana.

Já, mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn hafi það á hreinu að þeir muni fá sómasamlegt verð fyrir orkuna og séu ekki að selja hana á tombólu og efna til ófriðar í landinu og raska ósnertum náttúrusvæðum til að fá síðan slikk fyrir. Mér finnst það sjálfsagt mál og ég svara spurningunni þess vegna neitandi. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að menn hafi hugmynd um að þeir séu að fara að fá hátt verð. Auðvitað hefur það áhrif á skoðanir manna hvað varðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Ég hef fyrir mitt leyti sagt að ég sé alfarið á móti því að ráðast í virkjun í Urriðafossi. Hinar tvær virkjanirnar, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, eru virkjanir sem mætti með ólíkum útfærslum sjá fyrir sér en þá þarf að vita hvert menn eru að stefna. Menn þurfa að hafa einhverja heildarsýn til að geta tekið slíkar ákvarðanir.