144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir það margoft í ræðum hér í þinginu að með rennslisvirkjun og minnkuðu miðlunarlóni með sem minnstu raski finnist mér þessar tvær virkjanir, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, koma til greina. Ég er ekki heilt yfir á móti virkjunum eða hlynntur virkjunum.

Veröldin er einfaldlega ekki svo svört og hvít. Menn þurfa að hafa ákveðnar forsendur fyrir framan sig til að geta tekið ákvarðanir, það er eðlilegt. Það að ráðast í svona verk án þess að hafa þær er bara skot í myrkri. Menn vita ekkert hvað út úr því kemur. Því miður hefur það allt of lengi einkennt ákvörðunartöku á Íslandi. Eins og staðan er núna finnst mér að þessar upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar. Það er ekki hægt að segja þar með að ég sé hlynntur því að virkja í Þjórsá, ég er alls ekki að segja það. Ég vil hafa forsendur uppi á borðum áður en ég get tekið ákvörðun um það. Er það ekki eðlilegt? Er það ekki svoleiðis sem menn eiga að ráða ráðum sínum, hafa eins miklar upplýsingar og mögulegt er? Ég held það.

Það eru margar ágætar virkjanir reknar á Íslandi, m.a. í Þjórsá, sem skila góðum hagnaði, sem hafa verið mjög jákvæðir fjárfestingarkostir, en menn verða líka að velta fyrir sér hvenær nóg er komið og hvenær áhrifin fara að verða mjög neikvæð. Það er það sem ég vil hafa tækifæri til að gera, sem nefndarmaður og sem alþingismaður, að fjalla um málið í minni nefnd þótt ég þakki auðvitað það rausnarlega tilboð sem hv. þingmaður ber hér fram, að ég geti skilað inn umsögn eins og um það bil 60 til 70 aðrir lögaðilar í landinu og raunar allir aðrir Íslendingar.