144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vildi blanda mér örlítið í þessa umræðu af því að það vekur mér óþægilega tilfinningu að hæstv. umhverfisráðherra vilji ekki að umhverfis- og samgöngunefnd fjalli um rammaáætlun heldur hafi hann tilkynnt að hann vilji að málið fari til atvinnuveganefndar. Það erum við þingmenn sem ákveðum það þó að auðvitað sé reynt að fara eftir vilja ráðherra eftir því sem frekast er unnt.

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða er mikilsvert tæki fyrir okkur Íslendinga. Við erum rík af auðlindum til að búa til verðmæta orku sem nýta má í allra handa atvinnustarfsemi og það vita allir, það þarf ekki að tala rósamál í þeim efnum, að oft eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Á hinn bóginn koma sjónarmið um vernd þeirra svæða þar sem auðlindirnar eru af því að ósnortin íslensk náttúra er gríðarleg auðlind í sjálfu sér. Í gegnum árin og áratugina hafa verið deilur um hvort nýta eigi náttúrusvæði til að búa til orku. Þess vegna var rammaáætlun gríðarlega mikilvægt tæki til að reyna að skapa sátt. Auðvitað yrðu alltaf átök í ferlinu en það væri hægt með gögnum, rökum, málamiðlunum og mati að raða mögulegum virkjunarkostum í ákveðna röð og verja mikilvæg svæði. Þess vegna var mikið gleðiefni þegar við samþykktum rammaáætlun í ársbyrjun 2013, þó að reynt hafi verið að kasta rýrð á þá áætlun og lýsa yfir að hér hefðu einhverjir kostir verið teknir út fyrir af geðþótta og það hafi verið ómálefnalegt. Meðferðin var algerlega í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um rammaáætlun og það sem gert var á þinginu var eingöngu að færa kosti í biðflokk. Engir kostir voru teknir úr nýtingu í vernd og engir kostir teknir úr vernd í nýtingu heldur voru kostir færðir yfir í biðflokk til að hægt væri að rannsaka þá nánar.

Þrír kostir áttu að fá fljótvirkari meðferð en aðrir. Þrír virkjunarkostir í Þjórsá höfðu verið settir í nýtingarflokk en það komu upp sterk rök gegn því vegna laxastofnsins. Niðurstaðan varð sú að leggja ætti nánara mat á þessa þrjá kosti til að meta hvort virkjanirnar mundu skaða stofninn það mikið að ekki væri forsvaranlegt að fara í þær.

Nú er hér einn af þessum þremur kostum kominn fram í þingsályktunartillögu og ég leyfi mér að svo búnu að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum af því að slíta hann frá hinum tveimur kostunum, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Eins og farið hefur verið yfir hér í ræðum liggur fyrir að afla þurfi frekari upplýsinga um mótvægisaðgerðir vegna þeirra virkjana áður en hægt verði að ákveða um framtíð þessara svæða. Talað hefur verið um hvort þau svæði verði arðsöm ef mótvægisaðgerðirnar verða svona eða hinsegin. Mér finnst líka skipta máli að skoða hvort það að taka eina virkjun, Hvammsvirkjun, út fyrir sé nógu arðsamt. Kallar ekki ein virkjun á aðra? Verður ekki aukinn þrýstingur á það til að arðsemin verði ásættanleg, til að orkumagnið verði nógu mikið, svo það verði forsvaranlegt að fara út í skemmdir á landi og fjárfestingar sem þarf? Mér finnst óþægilegt og miður að við séum sett í þá stöðu að þurfa að taka einn af þessum þremur kostum sérstaklega í umræðu án þess að geta rætt niðurstöðuna varðandi alla þrjá samtímis. Þá óttast maður að það verði eins og svo oft er; þegar búið er að segja A verði þrýstingurinn á að segja B gríðarlega mikill og enn erfiðara að standast það en vilja manna til að virkja á ákveðnum svæðum í upphafi.

Ég er ánægð með það álit sem fylgir þingsályktunartillögunni og farið er vel í gegnum það sem unnið var og athugasemdir sem bárust. Ég vil þó leyfa mér að taka undir með Landvernd að vikuumsagnarfrestur er skammur. Samtökin kvarta jafnframt yfir því að það hafi einungis gefist innan við vika til að fara yfir gögn sem Landsvirkjun lagði fram og höfðu ekki verið opinber gögn og skrifa umsögn á þeim grunni. Það er miður. En mér finnst vel farið yfir hvaða aðferðafræði var beitt og er ánægð með það.

Það sem ég vil gera athugasemdir við er að þó að einhverjir hafi verið ósáttir við það á síðasta kjörtímabili að umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði um þessi mál þá hafa þau átt heimilisfesti þar og það gerir mig tortryggna að þeirri nefnd sé ekki treyst til að fjalla um málið. Sú nefnd hefur náð mikilli og góðri sátt og oft leyst flókin mál þannig að allir hafa getað gengið frá þeim haldandi sæmilega reisn sinni og ekki troðið á sjónarmiðum ákveðins hóps. Það er kannski það sem ráðherra hræðist, ég veit það ekki.

Ég vil líka benda á það að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson er sá þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur mesta þingreynslu og ég held að ráðherra ætti að treysta þeim flokksbróður sínum til að fjalla um þetta mál og fara ekki að búa til einhverjar tækifærisútskýringar eins og þær að þegar um vernd sé að ræða eigi umhverfisnefnd að fjalla um málið og þegar um nýtingu sé að ræða eigi atvinnuveganefnd að fjalla um málið. Það er tækifærismennska, það er vont verklag og ég biðla til hæstv. forseta míns, Einars K. Guðfinnssonar, að standa með Alþingi og gera athugasemdir við þetta hjá hæstv. ráðherra.