144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er stóryrt um það að sprengja ferlið í loft upp. Þetta er sá sáttatónn sem kveður við hjá þingmanninum (KaJúl: Svara spurningunni.) þegar um þetta er fjallað og talað er um að leggja þurfi mat á það sem kemur fram í texta með þingsályktunartillögunni.

Það er ekki farin fram rannsókn varðandi fiskstofnana. Auðvitað þarf að leggja mat á það, sérstaklega í ljósi þess sem ég sagði hér áðan. Auðvitað þurfum við að fá þá aðila sem um þetta fjalla eins og Veiðimálastofnun og spyrja hvort eitthvað hafi breyst frá því síðast.

En hverjir voru það sem í raun rufu griðin í þessu máli? Var það ekki málsmeðferðin á síðasta kjörtímabili? Tóku þáverandi ríkisstjórnarflokkar eitthvert mark á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, þeirra verkefnisstjórnar sem reyndar var búin að vinna í nokkur ár með tilheyrandi faghópum? (KaJúl: Svaraðu spurningunni. Treystirðu …?) Var það ekki þá sem niðurstöður þess verkefnis — (KaJúl: Svaraðu spurningunni.) ef menn tóku bara niðurröðunina frá honum eða (Gripið fram í.) matið, einkunnina sem kom út úr þeirri vinnu? (Gripið fram í.) Nei, það var ekki farið eftir því þá.

Nú er verið að rjúfa einhver grið þegar ég tek svo til orða hér að vitna í þau rök sem verkefnisstjórnin færir fyrir því að taka þurfi afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, að þá þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerð sem miði að verndun fiskstofna. Þá eru komnar fram einhverjar nýjar upplýsingar sem ég hef ekki haft. (Forseti hringir.) Nefndin hlýtur að taka það til skoðunar og meta hvort þetta standist (Forseti hringir.) hjá þessari verkefnisstjórn.