144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

Rauði krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, hálfmánans og kristalsins.

243. mál
[19:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.

Með frumvarpinu er kveðið á með skýrum hætti um stöðu Rauða krossins á Íslandi sem sjálfstæðs og óháðs félags, sem skiptir miklu máli og er í samræmi við Genfarsamningana frá árinu 1949.

Frumvarpið talar fyrir sig sjálft og er sambærilegt við lög annars staðar í heiminum hvað þetta varðar. Rauði krossinn er eina félagið hér á landi sem starfar eftir þessum reglum og því mikilvægt að hann hafi þá vernd sem hér kemur fram. Okkur þykir viðeigandi að gera þetta núna þar sem Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924 og á þess vegna 90 ára afmæli síðar á árinu.

Frumvarpið er ósköp einfalt og mælir fyrir um hlutverk félagsins, gerð merkisins og tilgang og þar kemur einnig fram að Rauði krossinn sé sjálfstætt og óháð félag sem starfi að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana og viðbótarbókanir þar um. Einnig er í 2. gr. frumvarpsins skýrt kveðið á um að öðrum en Rauða krossinum sé óheimilt að nota nafn félagsins og merki Rauða krossins sem og önnur merki hreyfingarinnar, sem eru eins og þingheimur þekkir Rauði hálfmáninn og Rauði kristallinn, eða nöfn eða merki sem þeim líkjast til auðkenningar á starfsemi, þjónustu eða vöru eða í öðrum sambærilegum tilgangi.

Þá er Rauða krossinum veitt heimild samkvæmt frumvarpinu til að veita öðrum aðilum leyfi til að nota merki félagsins á friðartímum, svo sem með því að auðkenna ökutæki sem notuð eru til sjúkraflutninga. Notkunin verður, líkt og ég nefndi áðan, að samræmast og vera í samræmi við Genfarsamningana frá 1949 og viðbótarbókanir þar um og alþjóðlegum reglum sem við eiga. Þá er einnig í 3. gr. frumvarpsins ráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna eftir umsögn Rauða krossins.

Til að upplýsa um það var á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans árið 2003 lagt fram sameiginlegt áheit stjórnvalda og Rauða krossins á Íslandi um að fara skyldi gaumgæfilega yfir ákvæði íslenskra laga er varða stöðu Rauða krossins og meta þörfina á því að setja sérstök lög um Rauða krossinn. Í kjölfar þeirrar vinnu hefur Rauði krossinn komið því áleiðis til stjórnvalda, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að mikilvægt sé að um þessa starfsemi gildi sérstök lög. Nú erum við að verða við því á sambærilegan hátt og önnur ríki hafa gert fyrir nokkuð löngu síðan. Það er að mínu mati afar viðeigandi að nú þegar liðin eru 90 ár í desember frá stofnun Rauða krossins á Íslandi sé lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir grein fyrir sérstakri stöðu Rauða krossins í samfélaginu og veitir merkjum félagsins vernd til að koma í veg fyrir misnotkun þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir ákvæðum frumvarpsins. Ég vil að lokum segja að ég tel þetta afar mikilvægt og vona innilega að þinginu takist að klára þetta innan þess tíma sem rætt er um, að Rauði krossinn sem hefur unnið ómetanlegt starf hér á landi eins og annars staðar fái þá sérstöku viðurkenningu og vernd sem felst í þessu frumvarpi. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.