144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

sjúkratryggingar.

242. mál
[19:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við Sjúkratryggingar Íslands og Útlendingastofnun. Tilefni þess er að tryggja jafna stöðu og samræma rétt allra þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa veitt stöðu flóttamanns hér á landi til sjúkratrygginga.

Þetta er réttlætismál sem felur í sér að allir einstaklingar sem fá stöðu flóttamanns hérlendis verða sjúkratryggðir frá komudegi óháð því hvort þeir koma sem kvótaflóttamenn eða fá stöðu flóttamanns eftir hælismeðferð eða fjölskyldusameiningu.

Samkvæmt gildandi 1. mgr. 16. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, eru flóttamenn, oft nefndir kvótaflóttamenn, sem ríkisstjórnin býður til Íslands sjúkratryggðir frá komudegi að því tilskildu að fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Flóttafólk sem kemur til Íslands á eigin vegum og fær stöðu sína viðurkennda eftir hælismeðferð nýtur ekki þessarar undanþágu og bíður jafnan í sex mánuði eftir því að verða sjúkratryggt. Þó ber að geta þess að allir njóta heilbrigðisþjónustu í neyðartilvikum og ósjúkratryggðum stendur til boða að kaupa sér sjúkrakostnaðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Flóttafólk sem kemur til landsins á eigin vegum er þó sjaldnast í þeirri stöðu að geta keypt sér slíkar tryggingar og slíkar tryggingar bæta til dæmis ekki kostnað vegna meðgöngu eða fæðingarhjálpar.

Flóttafólk í Noregi, Svíþjóð og Danmörku er sjúkratryggt eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt í þeim löndum og almennt er ekki gerður greinarmunur þar á flóttafólki eftir því hvort það kemur til landsins í boði stjórnvalda eða sem hælisleitendur.

Rétt er að nefna að EES-borgarar sem flytja til landsins eiga rétt á því að vera sjúkratryggðir frá þeim degi sem lögheimilisskráningu lýkur. Einstaklingar, þar á meðal Íslendingar, sem flytja hingað til lands frá löndum utan EES eru sjúkratryggðir að liðnum sex mánuðum frá lögheimilisskráningu að því gefnu að þeir hafi búið utan EES-svæðisins í eitt ár eða lengur.

Ef frumvarp þetta verður að lögum munu einstaklingar með stöðu flóttamanns ekki þurfa að bíða í sex mánuði eftir því að verða sjúkratryggðir en íslenskir ríkisborgarar sem flytja heim frá ríki utan EES-svæðisins þurfa að bíða í sex mánuði eftir því að verða sjúkratryggðir. Ef stjórnvöld veita einstaklingi stöðu flóttamanns er sérstaða einstaklingsins viðurkennd og þörf hans fyrir alþjóðlega vernd. Flóttamaðurinn hefur neyðst til að yfirgefa heimili sitt og eignir í mörgum tilvikum og stjórnvöld í hans eigin landi geta ekki eða vilja ekki veita honum þá vernd sem þörf er á. Staða hans er því ekki sambærileg stöðu íslenskra ríkisborgara sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi í sex mánuði þegar þeir flytja heim eftir að hafa búið utan EES-svæðisins. Mikilvægt er að hafa þetta í huga.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og leyfi mér að leggja til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.