144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í upplýsingum frá CreditInfo og í Hagtölum hefur komið fram gífurlega góð afkoma í sjávarútvegi. Tíu stærstu útgerðarfyrirtæki landsins hafa hagnast um tæpa 46 milljarða fyrir skatta og afskriftir og vexti frá árinu 2009. Sex fyrirtækin eiga þó enn eftir að skila ársreikningum fyrir árið 2013 svo að búast má við að hagnaðurinn verði enn meiri. Þar á meðal er Samherji, samstæðan sem skilaði 22 milljörðum í hagnað bara fyrir árið 2013. Samanlagðar bókfærðar heildareignir þessara fyrirtækja nema rúmum 123 milljörðum og eigið fé að frádregnum skuldum er rúmlega 76 milljarðar. Samherji og félög tengd honum fara nú með 15% heildarkvótans á Íslandi, en tengd fyrirtæki mega ekki fara með meira en 12% kvótans. Allt stefnir því í áframhaldandi samþjöppun í sjávarútvegi á kostnað minni útgerða og margra sjávarbyggða í landinu sem standa höllum fæti.

Stjórnvöld, hvað gera þau? Þau spila með og láta erfiðleika þeirra sig litlu varða og halda áfram að lækka veiðigjöldin á sjávarútvegsrisana sem græða á tá og fingri. Frekar skal ná inn tekjum í ríkissjóð af almenningi í landinu með hækkun á matarskatti og til að kóróna vitleysuna finnur fjármálaráðuneytið það út að ein máltíð kosti aðeins 250 kr. á mann og áhrif á hækkun á matvælum sé því sáralítil.

Ég spyr: Hvers lags veruleikafirring er þarna í gangi og kolvitlaus forgangsröðun?

Svarið er auðvitað: Þetta er hægri ríkisstjórnin sem er að brjóta niður innviði samfélagsins og breikka enn bilið á milli fátækra og ríkra. Og hvað? Stórútgerðin í landinu er vafin í bómull. Þeim skal hlíft, en það er pönkast á almenningi í landinu.