144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í tímaritinu Heimsljósi er fjallað um alþjóðlegan dag stúlkubarnsins sem var haldinn síðastliðinn laugardag 11. október þó að hann hafi ekki farið hátt hér á landi. Er þetta í þriðja sinn sem alþjóðlegur dagur stúlkubarna er haldinn og þennan dag kom einnig út skýrsla um hag stúlkna í heiminum frá samtökunum Planet International þar sem einkum er fjallað um stöðu stelpna í þróunarríkjunum með áherslu á að skapa viðvarandi breytingar í þágu unglingsstúlkna.

Eins og við vitum er staða þessa þjóðfélagshóps víða afar slæm eins og dregið var fram í kynningarátaki frjálsra félagasamtaka í alþjóðastarfi og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í síðustu viku undir yfirskriftinni Sterkar stelpur, sterk samfélög. Eitt af því sem kemur fram í skýrslunni er að nokkrir mikilvægir þættir í lífi margra stúlkna og ungra kvenna séu verndaðir í lögum sem erfitt reynist að vinna bug á, meðal annars vegna rótgróinna menningarlegra, félagslegra og trúarlegra siða gagnvart stúlkum sem koma í veg fyrir æskilegar breytingar. Þar er meðal annars nefnt barnabrúðkaup, fátækt, ójöfn staða kynjanna og skortur á barnavernd oft í samspili við takmarkaðan aðgang að gæðamenntun og atvinnutækifærum.

Á þessum alþjóðlega degi stúlkubarnsins árið 2014 getum við þó fagnað því að hin unga Malala skuli hafa hlotið friðarverðlaun Nóbels. Ég ætla að leyfa mér að vitna til orða hennar, með leyfi forseta:

„Það breytir öllu. Sterkar stelpur eru nefnilega lykillinn að sterkum samfélögum. Með menntun þeirra má rjúfa þann vítahring fátæktar sem fólk víða um heim býr við. Þó eru enn milljónir ungra stúlkna sem hafa ekki kost á því að ganga í skóla.“

Í þessu sambandi vil ég því að lokum minna á að Þróunarsamvinnustofnun Íslands stendur fyrir verkefnum sem miða að bættum hag stúlkna og stuðla að kynjajafnrétti. Það er því óásættanlegt að til standi að leggja þá stofnun niður í núverandi mynd.