144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu framhaldsskólans. Ég vil byrja á að útskýra aðeins hvað hér er verið að gera. Á undanförnum árum hefur fjármagn til framhaldsskólastigsins verið skorið mikið niður. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að fjármagn til framhaldsskólastigsins hefði verið skorið niður um 2 milljarða á sama tíma og nemendafjöldi á námsstiginu hefði aukist töluvert. Bent hefur verið á að svokallað einingaverð, þ.e. fjármagn á hvern nemanda, hefur lækkað jafnt og þétt. Það var árið 2008 rétt um 1 milljón, en á árunum 2011 og 2012 var framlagið komið niður fyrir 900 þús. kr. á nemanda á verðlagi ársins 2014.

Til að skilja þessar tölur má til samanburðar horfa til þess að nemandi á grunnskólastigi kostar 1,5 milljónir. Það er augljóst að framlagið á hvern nemanda á framhaldsskólastiginu er allt of lágt.

Hér er ekki verið að draga úr framlögum til framhaldsskólastigsins heldur þvert á móti verið að auka þau. Það er líka verið að taka ákvörðun um það — ég geri mér auðvitað grein fyrir að það verður umdeild ákvörðun — það er verið að segja að við ætlum að hækka framlagið á nemanda og koma því aftur yfir 1 millj. kr. á hvern nemanda að meðaltali. Það er enn of lágt. Það mun styrkja framhaldsskólann í því að koma í veg fyrir brottfall. Það mun styrkja framhaldsskólann í því að hjálpa nemendum að klára námið á tilsettum tíma, en íslenska framhaldsskólakerfið stendur mjög illa í öllum alþjóðlegum samanburði í því að nemendur klári á tilsettum tíma það nám sem þeir hafa skráð sig í. Það er hugsunin.

Sú ákvörðun að hækka framlag á nemanda þýðir að þegar skoðað er hversu langt það dugar til að hleypa öllum inn í skólann sem eru þar núna rekast menn á það að þar á eru takmörk og þá þarf að horfa eftir því hvaða regla þarf að gilda. Þá má líta til þess að árið 2012 var tekin ákvörðun með reglugerð af þáverandi hæstv. ráðherra að búin væri til forgangsröðun um það hvernig yrði tekið inn í framhaldsskólana, í hvaða röð nemendur væru teknir inn. Það er það sem hér er verið að gera, það er verið að segja: Þessir fjármunir eru til skiptanna. Hérna er reglugerðin sem var samþykkt árið 2012 um það í hvaða röð nemendurnir skuli teknir inn.

Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að þeir nemendur sem eru 25 ára og eldri hafa áfram tækifæri til þess að stunda nám sem leiði síðan til réttinda til þess að fara í háskóla. Það er grundvallaratriði.

Það er líka rétt í þessu að horfa aðeins til frænda okkar á Norðurlöndunum, hvernig þeir hafa komið þessu máli fyrir hjá sér. Ef við skoðum hjá frændum okkar Norðmönnum hafa þeir það kerfi hjá sér í grófum dráttum sagt að allir eiga rétt á þriggja ári námi í framhaldsskóla, og reyndar lengur ef námskrá mælir fyrir um slíkt, námið má taka á fimm til sex árum eftir atvikum, en verður að ljúka áður en nemandi klárar 24. ára aldursárið. Í Svíþjóð þurfa nemendur að hafa hafið nám í framhaldsskóla í síðasta lagi árið sem þeir verða tvítugir og hafa þá þrjú ár til að ljúka.

Það er þannig á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við að í flestum tilvikum, þó ekki öllum, Danirnir hafa þetta svolítið öðruvísi, en þegar við skoðum hin löndin eru takmarkanir og það er kerfi sem tekur á móti þeim nemendum sem ekki hafa klárað eða eru komnir vel af stað áður í framhaldsskólakerfinu. Þeir geta farið aðrar leiðir og þær eru opnar hér.

Mitt verkefni verður það á næstu mánuðum, og missirum þá líka, að stúdera nákvæmlega hvort það sé ekki alveg öruggt að þessar leiðir séu allar opnar og tiltækar. Ef ekki reynist einhverra hluta vegna, sem við reyndar höfum ekki séð að sé og höfum farið þó vel í gegnum það, er sjálfsagt að bregðast við því.

Það sem við erum að horfa til er að breyta framhaldsskólanum þannig að við leggjum áherslu á að reyna að fjármagna þá nemendur sem þangað leita þannig að einhver sómi sé að. Þá þarf að taka svona ákvörðun, erfiða ákvörðun svo sem en ég held að hún sé skynsamleg. Hún mun reynast okkur til lengri tíma betur, þ.e. að horfa á framhaldsskólann sem ungmennaskóla og hafa úrræði og þróa þau áfram fyrir þá sem eldri eru þannig að þeir þurfi ekki að setjast á skólabekk með 16 ára og geti farið aðrar leiðir til að komast í háskóla. Þær eru til. Töluvert fjármagn hefur verið sett akkúrat í þær leiðir á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég vil þó nota síðustu sekúndurnar til að nefna eitt hérna sem er svolítið mikilvægt. Í fyrsta lagi er ekki verið að loka á aðgengi fyrir þá sem eru í verknámi og eru eldri en 25 ára eins og hv. þm. Ári Páll Árnason hélt fram í ræðu. Það er rangt. Í öðru lagi eru smáreikniskekkjur í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpinu. Ég kem að þeim í minni seinni ræðu. Þær snúa að Menntaskólanum í Hamrahlíð, Menntaskólanum á Egilsstöðum, (Forseti hringir.) Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (Forseti hringir.) og Verkmenntaskólanum á Akureyri (Forseti hringir.) þar sem nemendafjöldinn mun aukast við leiðréttingu á skekkjunum.