144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að byrja ræðu mína á því að segja að ég hef miklar áhyggjur af stefnunni í menntamálum þar sem hún hefur farið fram undir þeim merkjum að það eigi að vera samráð en nánast allar yfirlýsingar um menntamál byrja á: „Ég ætla“, eða „ég skal“. Ég vona að við náum að breyta því þannig að við getum átt sameiginlega stefnumótun í menntamálum með hagsmuni íbúa landsins að leiðarljósi.

Við erum að vinna að því að auka menntunarstig á Íslandi, það er eitt af stóru vandamálum íslenska menntakerfisins að um 30% vinnumarkaðarins hafa aðeins grunnskólamenntun samanborið við 10% í Danmörku og þar er markmiðið að lækka hlutfallið niður í 5%. Hvað erum við að gera nú? Við erum að fara í þveröfuga átt, við ætlum að takmarka hverjir komast inn í skólana til að draga úr möguleikum fólks til viðbótarmenntunar eða framhaldsmenntunar, nema ætlun ráðherra sé að færa þetta allt saman út úr menntastofnunum yfir til sjálfstæðra stofnana þar sem eru nemendagjöld og há gjaldtaka til að komast inn í skólakerfið. Það er svo sem þekkt leið, sem þessi ríkisstjórn hefur notað mjög mikið, að reyna að færa gjaldtökuna frá almennri sameiginlegri skattgreiðslu yfir í gjaldtöku á einstökum stöðum.

Hér er líka verið að hækka greiðslur á nemanda til að bæta rekstrarstöðu framhaldsskólanna en um leið er nemendum fækkað og þeim er fækkað svo mikið úti á landsbyggðinni að neyðarkall hefur heyrst á hverjum einasta fundi sem við höfum komið á í okkar kjördæmum frá framhaldsskólunum: Hvernig eigum við að reka skólana með þessum nýju fjárlögum?

Það hefur líka verið ráðist á dreifnám og framhaldsnám. Ég ætla að treysta því að menn snúi af þessari leið og geri það sem lofað er í hvítbókinni, hafi samráð, bæði pólitískt og faglegt, um það hvernig við eigum að standa að menntamálum. Við viljum að samstaða sé um menntamálin og það á ekki að snúast um geðþóttaákvörðun, eða „ ég-aðgerðir“ hæstv. ráðherra, hvernig menntamálum er stýrt.