144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það liggur við að manni líði eins og skólameistara hérna uppi, þ.e. í algerri óvissu um hvert verið er að fara með þetta mál af hálfu menntamálaráðherra því það er alveg víst að ef einhverjir hafa misskilið hann þá eru það skólameistararnir í landinu, ef hægt er þá að misskilja hvað hæstv. ráðherra er að fara.

Í hvítbók menntamálaráðherra um umbætur í menntun er sérstakur kafli um námstíma og hvaða markmiði ráðherra hyggst ná með styttingu námstíma, þ.e. að 60% nemenda ljúki námi í framhaldsskóla á tilsettum tíma í stað 44% í dag með því meðal annars að stytta námið. Þetta er nokkuð skýrt. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er einnig fjallað um þetta og segir, með leyfi forseta:

„Að því marki sem takmörkunum verður beitt við innritun í framhaldsskóla verður megináhersla lögð á að mæta óskum nemenda undir 25 ára aldri um skólavist […] Að öllu samanlögðu þýðir þetta að ársnemendur fjárlaga 2015 verða 18.685 og er það fækkun um 916 ársnemendur.“

Það er þarna sem á að finna hærra framlag á nemenda, ekki með því að auka framlögin, heldur með því að breyta deilitölunni með því að lækka hana, þ.e. með því að fækka nemendum. Það er þannig sem á að gera það. Er hægt að misskilja það sem kemur fram í hvítbókinni og það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu? Nei, það hefur enginn misskilið það. Framhaldsskólameistarar hafa ekki misskilið það. Þeir hafa sent út yfirlýsingar hverja af annarri um áhrif þess að takmarka nám fólks eldra en 25 ára að skólunum, en þá kom menntamálaráðherra í gær í útvarpið og þar segir í frétt, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra segir það misskilning að til standi að innleiða styttingu framhaldsskólans næsta haust.“

Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra sér í þessu máli? Ætlar hann að fylgja hvítbókinni? Ætlar hann að fylgja fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) eða er þetta allt saman einn misskilningur? (Forseti hringir.) Og þá óska ég eftir því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) tali skýrar og sendi skýrari skilaboð til skólanna.