144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:04]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mjög lítið samráð virðist hafa verið haft við hagsmunaaðila varðandi fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólakerfinu eða við gerð hvítbókar. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að hefja nú þegar víðtæka umræðu um menntamál í landinu og kalla til hennar alla þá sem þessi mikilvægu mál varða. Miklar vangaveltur hafa átt sér stað um þessar breytingar og hvaða áhrif þær munu hafa í för með sér fyrir menntun í landinu, eins og t.d. stytting framhaldsskólans.

Við í Bjartri framtíð erum í sjálfu sér opin fyrir breytingum en erum ekki viss um að áform ráðherra tryggi jöfn tækifæri nemenda og auðveldi þeim nám sem ekki vilja fara í gegnum framhaldsskólann á þremur árum eða geta það einfaldlega ekki.

Margar spurningar vakna. Hvað á að skera burt? Er það kjarninn, sem eru skyldufögin, eða kjörsviðin, sem er sérhæfing og valfög, eða kannski hvort tveggja? Hvernig verður samráði háttað við nemendur, foreldra og kennara í ferlinu? Hvernig verður samráð milli skólastiga, t.d. grunnskóla og háskóla? Verða framhaldsskólarnir „strúktúreraðir“ eins eða á að gera breytingu á þeim? Mun þetta auka fjölbreytni í námsvali eða draga úr henni? Eykst þyngd námsins á hverri önn? Ef svo er, er búið að velta fyrir sér aukinni stoðþjónustu við hópinn sem á henni þarf að halda og mun verða stutt betur við nemendur fjárhagslega í ljósi þess að margir nemendur vinna með skóla? Verður ekki að endurskoða og gera breytingar á grunnskólanum samhliða áformunum styttingu framhaldsskólans?

Helstu rök hæstv. menntamálaráðherra fyrir styttingunni eru þau að við séum lengur að koma krökkum í gegnum grunn- og framhaldsskóla en aðrar þjóðir. Kemur t.d. til greina að lengja skólaárið og hafa sama háttinn á og Danir sem eru með 200 nemendadaga á ári á móti 180 hér sem þýðir að þeir eru níu ár að klára 1.800 daga en við erum tíu ár að klára þá?

Virðulegi forseti. Þetta eru margar spurningar og þær eru miklu fleiri sem svara þarf í þessu ferli öllu. Lykilatriðið er samráð við alla sem að menntamálum koma því að einungis þannig næst niðurstaða og sátt sem er mjög mikilvæg í þessum málaflokki. Menntamál eru atvinnumál og snúast um lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Menntun er í raun mikilvægasta fjárfesting þjóðar.