144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Ef marka má málflutning sumra hv. stjórnarþingmanna má vænta þess að hér verði einhverjar breytingar áður en við afgreiðum fjárlögin.

Hæstv. ráðherra vill bera okkar menntakerfi saman við menntakerfi annars staðar á Norðurlöndunum. Það er vissulega lærdómsríkur samanburður en við náum ekki þeim viðmiðum með skyndiákvörðun um fjöldatakmarkanir, það þarf meira til, bæði frekari undirbúning og fjármagn. Þrengt hefur verið að framhaldsskólunum og þeim hefur tekist að halda uppi þjónustu þrátt fyrir niðurskurð, en í stað þess að leggja fjármagn til skólanna er nemendum fækkað þannig að deilt er í heildarframlagið með lægri nemendatölu og út kemur hærra framlag á hvern nemanda. Nemendum er fækkað til að dæmið gangi upp.

Framhaldsskólarnir tóku vel á til að mæta ungu fólki í atvinnuleit þegar atvinnuleysi var sem mest hér á landi á síðasta kjörtímabili. Þannig fengu margir og þar á meðal 25 ára einstaklingar tækifæri til að mennta sig út úr kreppunni ef svo má segja. Menntun verður ekki frá okkur tekin. Henni verður til dæmis ekki stolið frá okkur og menntun stuðlar að vexti bæði einstaklinga og samfélaga. Þess vegna borgar sig að leggja fjármuni í menntun og raða henni framar í forgangsröðinni með viðbótarframlagi. Það eigum við að gera núna þegar við erum að rétta úr kútnum eftir efnahagshrun.

Mér finnst stjórnvöld sýna mikla skammsýni og metnaðarleysi þegar þau vilja greiða fyrir kjarasamninga kennara með fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla. Þar finnst mér vanta alla hugsun, leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, og framtíðarsýn bæði í mennta- og byggðamálum.