144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því að svona staðreyndir virðast vera dálítið á reiki í þessum sal var það þannig að þegar iðnaðarnefnd hafði fjallað um löggjöfina sem liggur til grundvallar þeirri þingsályktunartillögu sem síðar var samþykkt tóku þau lög gildi. Eftir það var ákveðið að þingsályktunartillagan yrði framvegis til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd vegna þess að málaflokkurinn var í framhaldinu fluttur yfir til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Á þessu er verið að gera breytingar. Það er stefnubreyting. Það er ekki bara einhver léttvæg ákvörðun ráðherra í þetta skiptið að leyfa atvinnuveganefnd að fara með þetta mál að þessu sinni, það megi alveg eins. Það er ekki þannig, þetta er stefnubreyting. Það var tekin ákvörðun um færa málaflokkinn til innan þingsins og hæstv. forseti samþykkti það.

Ég hafði gert ráð fyrir að þingið gerði við þetta athugasemdir. (Forseti hringir.) Það hefði verið réttast.