144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[16:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að nýta tækifærið og eiga andsvar við hæstv. ráðherra til að fá svör.

Í 1. gr. er talað um fjölda orlofa, að það sé ekki kostnaðarauki við þá grein. Ef ég skil þetta rétt er orlofsfjöldinn óbreyttur en í hópinn bætast skólameistarar og aðrir faglegir stjórnendur auk náms- og starfsráðgjafa. Þá spyr ég: Þýðir þetta að þessir hópar fari inn í takmarkaðan fjölda orlofa sem þýðir þá skerðingu á orlofi kennara, eða hvað? Bara til þess að hafa það á hreinu.

Í öðru lagi langar mig að spyrja um gjaldtökur í skólakerfinu. Nú hefur þetta í sjálfu sér verið undanþáguákvæði í langan tíma, þ.e. í sjálfum framhaldsskólalögunum eða skólalögunum, ef ég man rétt, er gert ráð fyrir að námsefni sé ókeypis í skólum. Verið að taka rafræna efnið út. Að vísu hafa nemendur þurft að skaffa sér bækur sjálfir. Hér er verið að taka rafræna efnið út og væntanlega þá lagt á alla óháð því hversu mikið rafræna efnið er notað.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir einhver útreikningur á því hver upphæðin verður hjá hverjum skóla? Eða verður það algjörlega bundið við að vera tilraunaverkefni og umsókn til ráðherra og því þar með vísað nánast út úr þinginu yfir til ráðherra að ákveða hversu há gjaldtakan megi vera?

Síðan er þarna breyting sem varðar sveitarfélögin. Það vekur athygli mína að talað er um að haft hafi verið samráð en sveitarfélögin eru ekki nefnd. Er þessi breyting gerð án samráðs við sveitarfélögin? Þau hafa verið að gera kröfu um að fá aukna hlutdeild af gjöldum, m.a. af gatnagerðargjöldum, af því að þetta lagaákvæði er ekki nógu skýrt. Getur ráðherra breytt þessu einhliða án þess að hafa samráð við sveitarfélögin?