144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[16:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns um námsorlofin ítreka ég að haft var samráð við Kennarasamband Íslands um það ákvæði í frumvarpinu. Það verður ekki kostnaðarauki af því þannig að það er þá í það framboð sem nú er til staðar hvað varðar launuðu námsorlofin. Hér er um réttlætismál að ræða og augljóst að þeir aðilar sem þarna bætast við eiga þennan rétt.

Annað atriðið er um rafrænt námsefni og gjaldtöku þar á. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er ekki svo að námsefni á framhaldsskólastiginu sé ókeypis. Nemendur þurfa að leggja út fyrir bókum og alls konar öðru námsefni, í bókarformi, ljósritum og öðru slíku. Hér er verið að leggja upp með það, og þetta er auðvitað tilraunaverkefni, að hægt sé að búa til rafrænt námsefni og veita aðgang að því á þennan hátt, að t.d. í ákveðinni bekkjardeild þar sem námsefnið er notað kaupi allir það námsefni og þar með verði hægt að lækka námsgagnakostnað nemendanna. Til þess er leikurinn gerður, að lækka kostnað nemenda við að kaupa sér námsgögnin. Það er gert ráð fyrir því að veitt verði heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma og hún bundin við tilteknar námsgreinar. Við erum að þreifa okkur áfram með þetta til þess að sjá hvernig það á að virka.

Í þriðja lagi hvað varðar sveitarfélögin þarf að hafa í huga, og þess vegna var haft samráð við ríkislögmann, að skoða þarf hvernig lögunum var breytt. Horfið var frá því orðalagi sem áður var þegar talað var um að lóðir væru lagðar fram „án kvaða eða gjalda“ og sú breyting varð á orðalaginu að notað var „án endurgjalds“. Þegar sú breyting var gerð (Forseti hringir.) lá það alveg fyrir í lögskýringargögnum að ekki stóð til að breyta því fyrirkomulagi sem var, en vegna orðalagsbreytingarinnar var byrjað að túlka lögin á þennan hátt. Það er aðeins verið að árétta það réttarástand sem var uppi áður.