144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns er eitt atriði sem ég vil sérstaklega ræða sem snýr að rafræna námsefninu og þeim vangaveltum að kaupa rafrænt námsefni fyrir allt skólakerfið í einu, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Nú kann það að vera ekki mjög skynsamlegt ráðslag. Um getur verið að ræða tiltölulega sérhæft efni sem notað er af kannski ekki svo stórum hópi og jafnvel ekki til hefðbundnar kennslubækur, ekki markaður fyrir stórar og miklar kennslubækur um það. Oft er þetta líka leyst þannig að kennarar búa til ljósrit um ákveðið efni og svo framvegis. Með slíka stöðu í huga kann að vera skynsamlegt að geta haft slíka heimild að þeir sem stunda þetta nám geti, í staðinn fyrir að kaupa ljósritin, keypt aðgang að rafræna efninu og það á lægra verði en t.d. ljósritin sem er verið að kaupa í dag.

Að sjá það fyrir sér þannig að hægt verði að kaupa þetta fyrir allt kerfið í einu held ég að yrði nokkuð dýr lausn af því að töluvert af námsefni er notað af ekki svo stórum hópi nemenda.