144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að taka það fram, sem þó kom fram í ræðu minni í upphafi um opinbert eftirlit með húsnæði einkaskóla, að ráðuneytið hefur, svo ég vitni nú bara í ræðu mína, með leyfi forseta, „ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram lögbundið eftirlit opinberra eftirlitsstofnana.“ Þannig er málum háttað núna.

Aftur að umræðunni um rafræna námsefnið, hún er áhugaverð. Ég hef ekki áhyggjur af því að við þetta myndist eitthvert stórkostlegt skrifræðisbákn. Þetta er hugsað sem tilraunaverkefni. Ég á ekki von á því að yfir ráðuneytið hvelfist mikil flóðbylgja af slíkum umsóknum. Ef það gerist verðum við auðvitað að fást við það, en ég á ekki von á því.

Við erum þarna að prófa okkur áfram með módel sem kann að vera heppilegt og gæti leitt til þess, miðað við núverandi stöðu, að námsgagnakostnaður lækki hjá nemendunum. Til þess er leikurinn gerður. Það er vandamál uppi með dreifinguna. Þarna er verið að reyna að finna leiðir til að leysa úr því. Við eigum ábyggilega eftir að taka tíma í að útfæra nákvæmlega hvernig best er að því staðið í samráði við bókaútgefendur og skólafólkið, en þetta snýr að því að lækka kostnaðinn.

Svo er það alveg sérstök umræða þar fyrir utan hvort taka eigi þá ákvörðun að láta allt námsefnið vera ókeypis í framhaldsskólunum. Það væri sérstök ákvörðun, en meðan við búum við núverandi fyrirkomulag held ég að við eigum að vera opin fyrir því að leita leiða til að lækka kostnaðinn hjá nemendum. Þetta er tilraun til þess.