144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er afar áhugaverð umræða og ekki að ósekju sem við ræðum skólamál á víðum grunni eins og ráðherra hefur orðið var við og auðvitað fullt efni og ástæður til. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og finnst þetta vera eitthvað sem við hljótum að stefna að. Þess vegna finnst mér gjaldtaka fyrir nám skjóta skökku við þó að þetta eigi að vera tilraunaverkefni því að mér finnst að við eigum alltaf að feta okkur í hina áttina en ekki þá að búa til nýja gjaldtökustofna. Mér finnst þetta því ekki skynsamlegt. Ég held að það sem kom fram áðan, hvort það ætti frekar að vera einhver þróunarsjóður, styrkur eða eitthvað slíkt, væri skynsamlegra.

Mig langar aðeins að velta einu upp hér varðandi rafrænt námsefni, hvort ráðherra viti hversu margir skólar nota slíkt nú þegar og í hve miklum mæli, hvernig því sé miðlað til þeirra eða hvort það sé fyrst og fremst búið til af hálfu skólanna. Kvarta skólarnir yfir því eða þeir sem hafa búið það til að það fari of víða án greiðslu?

Ég er ekkert sérstaklega hlynnt því að allt efni sé samræmt. Ég vil miklu frekar sjá að við höfum í grunninn einhverja ákveðna þætti sem við þurfum að taka á og kenna nemendum okkar frekar en að allt efnið sem undirbyggi það sé hið sama. Hins vegar má ekki gleyma því að það að útbúa rafrænt efni er ekki minna mál en að skrifa bók. Það er kannski hluti af því að þeir sem útbúa námsefni, þ.e. ef það fer víða, vilja fá greitt fyrir það.

Eins og ég segi finnst mér að við eigum ekki að stefna að aukinni gjaldtöku í skólakerfinu heldur þurfum við að finna leiðir til annars. Þetta er eitt af því sem snertir jafnræði til náms. Við höfum oft heyrt að það reynist mörgum þungt að þurfa að kaupa bækur fyrir tugi þúsunda á hverju skólaári þrátt fyrir að hafa jafnvel aðgang að skiptibókamarkaði þar sem kostnaðinum er náð niður. Ég held að þetta sé ekki gott skref. Ég ætla að vona að nefndin beri gæfu til þess að finna út úr þessu.

Ég tek undir það sem kemur fram í frumvarpinu og ég er nokkuð sannfærð um að meira en minna verði um aðgang að rafrænu námi eftir því sem tímanum vindur fram. Mín reynsla er a.m.k. sú að kynslóð þeirra sem eru að koma inn í framhaldsskóla landsins eða eru þar núna hentar betur að lesa af skjá en okkur sem eldri erum. Þar af leiðandi hlýtur þetta að vera eitthvað sem mun ryðja sér enn frekar til rúms.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og ítreka að ég vona að nefndin finni út úr því hvernig hægt sé að framkvæma þetta með öðrum hætti en aukinni gjaldtöku. Við getum ákveðið að fjármagna þetta en spurningin er hvaða leiðir við förum í tekjuöflun.

Mig langaði að koma líka inn á launuð orlof sem voru aðeins rædd áðan. Ég er mjög þakklát og glöð yfir að náms- og starfsráðgjafar fái að komast í þessa púllíu, verandi í þeim geira. Það skaut svolítið skökku við að þeir væru eini hópurinn sem stóð þarna fyrir utan. Hæstv. ráðherra sagði, ef ég tók rétt eftir, að þetta hefði allt verið unnið í samráði við Kennarasamband Íslands. Ég spyr því: Hversu margir fá launuð starfsleyfi á hverju ári? Mér finnst þetta mjög sérkennilegt því að það er mjög erfitt að fá leyfi á launum; fólk sækir jafnvel um í tíu ár án þess að fá leyfi. Mér finnst því mjög sérstakt ef Kennarasamband Íslands hefur ekki óskað eftir því um leið að fá einhver viðbótarframlög vegna þessa. Ég tel að menn samið af sér ef svo er, algjörlega, vegna þess að fólk þarf að bíða í mjög langan tíma og þetta lengir þann tíma væntanlega enn frekar. Ég mundi vilja að ráðherra upplýsti um það hversu margir þetta eru á hverju ári og hvert viðmiðið sé í sambandi við hversu lengi fólk þurfi að bíða frá því að það sækir um fyrst. Mér finnst það skipta máli. Þetta er hluti af kjarabaráttunni.

Ég er svo sem ánægð að sjá að auka eigi eftirlit. Það sem við viljum er gott skólahúsnæði. En mig langar að spyrja ráðherrann um það sem hann sagði varðandi viðurkennt skólahúsnæði sem uppfyllti lög og reglugerðir þar að lútandi. Hver er staðan í þeim málum núna? Uppfylla allir framhaldsskólar þessi viðmið? Hafa þeir til dæmis mötuneyti? Mér finnst þetta mikilvægt því að… (ÖS: Hvað kostar máltíðin þar?)— já, hvað skyldi máltíðin kosta þar? Rétt, hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson. Skyldi hún vera á 250 kall eða meira? Þetta skiptir miklu máli því að það er hluti af skólastarfinu að hafa aðgengi að mötuneyti. Þetta er eitt af grunnatriðunum. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann viti hversu margir skólar falli undir það í rauninni að vera ekki í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfylli lög og reglugerðir þar um. Hvernig sér hann fyrir sér að hægt verði að bregðast við því á komandi árum?

Í sambandi við það sem við vorum að ræða áðan um nám almennt þá langar mig líka að velta því upp hér við ráðherra hvort hann sé sáttur við þau framlög sem lögð eru til í fjárlagafrumvarpinu fyrir hans málaflokk og hvort hann ætli að berjast fyrir því að fá þar inn meira í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram og í ljósi þess sem skólameistarar og sveitarstjórnarfólk og fleiri hafa meira eða minna rætt um, að þetta sé óásættanlegt. Við vitum að allir vilja meiri fjármuni. Gæti hann séð það fyrir sér að hægt væri að forgangsraða með öðrum hætti svo að meiri fjármunir kæmu inn í þennan málaflokk?

Opinberum störfum fækkar væntanlega og þá sérstaklega á landsbyggðinni miðað við fram komið frumvarp. Mig langar því að spyrja hann hvort það hafi verið tekið saman hversu mörg störf það verða. Það væri ágætt ef ráðherra gæti upplýst um það því að skilaboðin virðast vera óljós og ráðherra segir að hlutirnir séu misskildir. Eins og kom fram fyrr í dag virðast mjög margir hafa misskilið málið. Það er ekki gott ef svo er. Ef fækkun nemenda verður svona mikil þá þýðir það klárlega fækkun kennara líka. Hvar kemur það helst niður?

Mig langar líka að velta öðru upp. Það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um þriggja ára nám sem ráðherra hefur tjáð sig um, þ.e. hann vill stytta nám í framhaldsskólum af því að hann telur að það skili nemendum hraðar út í samfélagið til vinnu. Mun hann samþykkja námskrár fyrir næsta haust ef þær taka til fjögurra ára eða ekki? Svarið við því er já eða nei þannig að það á ekki að flækjast fyrir hæstv. ráðherra að svara.

Mig langar líka að spyrja um þróun nemendaígilda. Á miðju ári voru nemendaígildi skorin niður. Ég dreg reyndar í efa að heimilt sé að gera slíkt á miðju fjárlagaári án samráðs við Alþingi. Nú dettur mér í hug sá skóli sem fer einna verst út úr því, Menntaskólinn á Egilsstöðum. Hvernig voru þessar tölur fundnar? Þær eru í engu samræmi við áætlanir um það sem koma skal, þ.e. þá árganga sem fram undan eru, og þær eru ekki heldur í neinum tengslum við þá sem eldri eru. Þetta skiptir allt máli í þessari umræðu. Mér hefur fundist ráðherra koma sér svolítið hjá því að svara ákveðnum spurningum og þess vegna leyfi ég mér að spyrja um þetta mál núna.

Jafnræði til náms er mikilvægt þegar verið er að tala um aukna gjaldtöku. Mér er það hugleikið. Eins og ráðherra veit þá hleyptum við öllum í nám, burt séð frá því sem hann vísaði til hér í dag, að ákveðin forgangsröð hefði verið samþykkt, þá var öllum fundinn staður. Það á ekki að gera núna. Ég spyr hvort hann hafi gögn í höndunum sem sýna fram á hvaða áhrif það hefur á minni skólana í hinum dreifðu byggðum, hvort sviðsmynd liggi fyrir sem sýni hvort þeir verði starfhæfir eða ekki. Þetta er byggðamál og skiptir mjög miklu máli. Þetta er reyndar bæði mennta- og byggðamál. Mér finnst að ráðherra þurfi að svara þessu.

Í lokin langar mig að velta því upp hvort ráðherra sjái fyrir sér og hvort hann tryggi það að dreifnám verði á þeim stöðum sem það hefur nú þegar verið hafið og eins hvort það sé tryggt að dreifnám verði til viðbótar þar sem það hafði verið áformað.

Allt þetta skiptir máli í hinu stóra samhengi sem við erum að fjalla um. Við fjöllum um starfstíma framhaldsskóla. Þetta kemur líka inn á þann tíma sem nemendur hafa til að mennta sig. Hér er verið að auka kennsludaga um fimm á ári. Á það að mæta styttingunni? Hvers vegna var ákveðið að fjölga dögunum? Það er ekki rökstutt sérstaklega, það er bara sagt. Ég geri mér grein fyrir að starfsumhverfi kennara var breytt í kjarasamningum. Snýst þetta sem sagt um þá eða um hvað snýst það að fjölga námsmats- og kennsludögum? Komust kennarar og nemendur ekki yfir það sem þeir þurftu á þessum dögum eða er þetta hluti af styttingu námstíma?