144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun einskorða mig við athugasemdir sem snúa að frumvarpinu. Varðandi rafræn námsgögn þá lít ég svo á, að því gefnu að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fella niður allan námsgagnakostnað, að við hljótum að stíga öll þau skref sem við sjáum möguleg til að lækka námskostnaðinn frá því sem nú er. Þarna er líka verið að skoða hvort hægt sé að búa til einhvers konar kerfi sem eykur framleiðslu á rafrænu námsefni. Við erum því bæði að horfa á að lækka námskostnaðinn en líka að auka framleiðsluna á rafrænu námsefni sem ég held að geti verið mjög jákvætt fyrir okkur.

Að því gefnu að ekki hafi verið ákvörðun um að fella niður námsgagnakostnaðinn þá er þetta til þess fallið að draga úr kostnaði nemenda við námsgögn, annars verða þeir að kaupa þau sömu námsgögn í einhvers konar pappírsformi, hvort sem um er að ræða bók eða ljósrit eða eitthvað þess háttar, sem er dýrara í framleiðslu en það sem hér um ræðir. Þar af leiðandi má færa fyrir því sterk rök að þetta væri leið til lækkunar á kostnaði.

Hvað varðar þann þáttinn sem snýr að húsnæði einkaskóla þá er það þannig orðað, með leyfi virðulegs forseta, í 2. gr.:

„… að kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.“

Þá er rétt að horfa til þess sem síðan er sagt frá í greinargerð þar sem stendur:

„Sú breyting sem 2. gr. frumvarpsins kveður á um er lögð til með hliðsjón af ákvæðum laga og reglugerða um opinbert byggingareftirlit sem fer fram hjá öðrum stjórnvöldum en ráðuneytinu. Þar er kveðið á um fullnægjandi eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram en ráðuneytið hefur ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram lögbundið eftirlit opinberra eftirlitsstofnana.“