144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hugur minn stendur ekki til þess að lengja þessa umræðu nein ósköp en það er engu að síður freistandi að drepa aðeins á málefni framhaldsskólanna eða öllu heldur hvað er að gerast á framhaldsskólastiginu og þó fyrst og fremst hvað er að gerast inni í skúmaskotum ráðuneytisins hvað varðar framhaldsskólana. Maður hefur orðið æ meira undrandi undangengnar vikur þegar manni hefur orðið það ljóst hve mikil óvissa er uppi meðal stjórnenda skóla og víðar um í hvað stefni hjá hæstv. ráðherra. Það er dálítið sérkennilegt þegar skólastjórnendur þurfa að reyna að lesa véfréttarlegar yfirlýsingar og ræður en hafa lítið í höndunum til að byggja á hvað varðar áformin um lengd náms, námskrárgerð eða hvaða hlutur minni framhaldsskólum er ætlaður á næstu árum í stefnu hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.

Við höfum þrjú lagt fram ítarlega fyrirspurn til hæstv. ráðherra, m.a. eftir heimsóknir í kjördæmi okkar sem eru Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi í kjördæmaviku á dögunum því að þar bar þessi mál mjög á góma. Stjórnendur framhaldsskóla, nánast með tölu, leituðu eftir því að fá að hitta þingmenn og báru sig illa bæði undan ýmsum fjárhagslegum atriðum, þá ekki síst minni framhaldsskólarnir og þeir minnstu, en líka út af óvissunni sem þeir töldu sig búa við. Ég held að það sé þar af leiðandi mjög mikilvægt og treysti því að hæstv. ráðherra geti fullvissað okkur um að fyrirspurninni verði svarað fljótt og vel, og að við fáum eins skýr svör við þessum ítarlegu spurningum sem eru til þess ætlaðar fyrst og fremst að draga fram nákvæmlega hvar þessi mál standa og fá á prenti og hér á Alþingi þar sem menn eru öðru fremur skuldbundnir til að vanda sig við að veita réttar og greinargóðar upplýsingar.

Efni þessa frumvarps og það sem hér hefur mest verið rætt er sem sagt gjaldtökuheimildir vegna gerðar rafræns námsefnis. Gott og vel, það má kalla eðlilegt sjónarmið að samræmis sé gætt í því að því marki sem námsefni færist yfir á það form og að nemendur eru að greiða almennt fyrir sitt námsefni. Hvernig menn ætla svo að koma því við er önnur saga. Ég sé að hér hafa menn hörfað í það að fara í einhver tilraunaverkefni í þessum efnum vegna þess að málið er væntanlega ekki einfalt.

Það er reyndar umhugsunarefni — og ég játa fúslega að mér var ekki ljóst fyrr en ég las greinargerð frumvarpsins og umsögn um 4. gr. þess — hvernig þessum málum er háttað. Það er sett í lög á árinu 2008 að tilgreina skuli í fjárlögum þá fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna en engu fé hefur verið til þess úthlutað. Jú, við þekkjum árferðið eins og það var og allt þetta, en kostnaðurinn er mjög umtalsverður og upplýst hér að hann geti verið á bilinu 1,3–1,9 milljarðar á ári. Það er enginn smáreikningur sem nemendur í framhaldsskólum og heimilin á bak við þá bera þarna. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur hvort ekki ætti að stefna að því að á komandi árum yrði eitthvað dregið úr þessum kostnaði. Þetta er þáttur sem er augljóslega það þungur að hann getur haft veruleg áhrif á aðstöðu manna og jafnrétti til náms því að þarna er ekki horft í efnahag nemendanna eða fjölskyldnanna. Eftir atvikum ætti líka að leita leiða eins og ég heyrði hæstv. ráðherra segja til að hafa sem minnstan kostnað af því að leysa þetta verkefni með sem praktískustum hætti.

Verður það best gert með því að námsgögnin verði meira og minna rafræn?

Nú ætla ég að sjálfsögðu ekki að gera lítið úr ágæti þess að í einhverjum mæli geti menn notast við þá tækni. Hún kann vel að henta til að útbúa þess vegna sérhæft námsefni eða leysa málin í afmörkuðum tilvikum en ég ætla engu að síður að nefna gerð námsbóka. Menn skulu þá ekki heldur gleyma hinu, nema mönnum sé bara alveg sama hvað verður um námsgagnagerð á prentuðu og útgefnu formi. Það er kannski ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þætti. Við skulum ekki alveg gleyma okkur í hinum rafræna heimi í þessum efnum.

Það vill svo til að í efnahags- og viðskiptanefnd var í morgun verið að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskatti og á okkar fund komu fulltrúar bókaútgefenda og rithöfunda og drógu upp ansi dökka mynd af því hvernig bókaútgáfa í landinu er stödd. Þeirra mat er ósköp einfaldlega að hún megi ekki við neinum viðbótaráföllum og allra síst því að virðisaukaskattur á bækur verði hækkaður.

Hvað nefndu þessir ágætu fulltrúar? Jú, m.a. kostnaðarsama útgáfu sem bókaforlögin hafa reynt að standa í en fá sáralítið til baka fyrir og tapa jafnvel á. Útgáfa námsbóka var gjarnan nefnd númer tvö. Verði enn þrengt að starfsgrundvelli bókaútgáfu í landinu blæs kannski ekki byrlega með hana. Eru menn sáttir við þá framtíðarsýn að bókin hverfi meira og minna úr námsgagnaflórunni? Hvers konar námsbækur erum við gjarnan að tala um sem forlögin hafa af miklum metnaði reynt að tryggja að væru í boði, gefið út, jafnvel vitandi að það er tap á útgáfunni í einhver ár þangað til salan hefur vonandi náð upp í þau mörk sem hefur kostað að gefa bókina út þegar nokkrir árgangar eru búnir að kaupa námsbækurnar? Jú, strax var nefnt dæmi af vönduðum námsbókum í íslensku. Það er þar sem bókaþjóðinni finnst gjarnan að hún eigi að hafa sæmilega myndarleg, vel útgefin og vönduð námsgögn á bókarformi.

Það væri ástæða til að taka hér sérstaka umræðu um stöðu bókarinnar, bókaútgáfunnar og lestrarkunnáttu í landinu sem ég veit að hæstv. ráðherra er hugleikin. Ég sé ekki að þetta stefni mjög vel og allra síst ef þetta virðisaukaskattsfrumvarp nær fram að ganga sem mun taka 5% í viðbót af sölutekjum bóka og færa þau til ríkisins frá útgefendum eða höfundum, og telja þeir sinn hlut oft ekki mikinn. Afleiðingarnar gætu auðvitað orðið þær að forlögin, þau sem þá vonandi samt sem áður lifa af, neyðast til að fara í enn þá meira val í sambandi við hvað selst og hvað ekki þannig að fagurbókmenntir, myndskreyttar barnabækur og vandaðar námsbækur mæti afgangi, forlögin verði einfaldlega neydd til þess.

Ég tel þetta grafalvarlegt mál og ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að fullu fyrr en í morgun, t.d. hvernig staðan er orðin með ýmsa af þeim stuðningsliðum sem þó hafa verið til staðar í veikum mæli á bak við bókaútgáfu í landinu, t.d. Bókasafnssjóð. Hæstv. ráðherra veit hvernig fór með hann í fjárlögum ársins í ár. Framlögin voru næstum helmingur, komin niður í 24 millj. kr. sem þýðir að það eru greiddar kannski 17–18 kr. til höfundarins fyrir hvert útlán. Á þessu hafa margir höfundar talsvert byggt sína afkomu og gera í mjög ríkum mæli í sumum nágrannalöndum þar sem greitt er nokkuð myndarlega fyrir þessa þjónustu. Það er auðvitað litið á það sem stuðning við bókaútgáfu og rithöfundastarf. Af þessu öllu saman hef ég verulegar áhyggjur og mér finnst að við mættum gjarnan velta þessum hlutum fyrir okkur í tengslum við þetta frumvarp og efni þess nú eins og hér hefur komið fram, aðallega af þessu rafræna námsefni og hvernig menn ætla sér að koma við einhverri gjaldtöku í þeim efnum.

Að öðru leyti skal ég geyma til betri tíma umræður um málefni framhaldsskólanna almennt. Ég trúi að við séum ekki búin að segja okkar síðasta orð í þeim efnum. Það getur þess vegna beðið afgreiðslu fjárlagafrumvarps og tekjuöflunarfrumvarpa eða bandorma tengdum fjárlögum þar sem þessi mál eru undir eins og ég nefndi með virðisaukaskattinn. Ég hef í þeim efnum alveg sérstakar áhyggjur af námi á framhaldsstigi á landsbyggðinni og í hinum dreifðari byggðum sem mér sýnist ekki blása byrlega fyrir miðað við þær aðstæður sem við okkur blasa núna. Það verður ekki þannig ef ég fæ einhverju um ráðið að námi á framhaldsskólastigi í hinum dreifðari byggðum blæði út í þögn og kyrrþey. Það verður ekki meðan maður getur eitthvað látið í sér heyra í þeim efnum þannig að ég hef alls ekki sagt mitt síðasta orð í þeim efnum þótt ég ljúki máli mínu nú um þetta efni.