144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fjalla um skiptibókaferlið. Eins og málin standa geta nemendur einfaldlega skipst á bókum á milli námskeiða. Það er ekki mjög dýrt, nema þegar fyrsta bókin er keypt. Það er hægt að kaupa bók af öðrum nemendum sem er yfirleitt ódýrara, bókin er á kostnaðarverði fyrir nemandann, en að fara á skiptibókamarkað. Nemandi fær sama verð fyrir bókina og þegar hann kom með hana inn og kemur í raun út á núlli í bókakostnaði þegar allt kemur til alls, nema hann sé svo óheppinn að um sé að ræða nýja útgáfu.

Svo eru það skiptibókamarkaðarnir, sem við þekkjum. Það er mögulegt að panta á netinu, bæði notaðar bækur og nýjar, til að hafa áhrif á kostnað við bækur í ferlinu. Einnig er hægt að kaupa nýja bók og mögulega er hægt að fá ókeypis afrit einhvers staðar á internetinu ef fólk vill hafa þann háttinn á. Það eru margir misdýrir kostir í stöðunni þegar nemendur þurfa að útvega sér námsefni. Í uppsetningu ráðherrans fækkar þeim kostum. Eins frábær og mér þykir rafvæðing námsgagna hef ég áhyggjur af þeirri fækkun möguleika sem nemandi hefur til að stilla fram og til baka hvað hann fær fyrir námsbækur. Þegar hann kemur inn í þetta kerfi og kaupir rafrænu útgáfuna getur hann ekki selt hana. Það verður grundvallarbreyting þar á.

Hins vegar er þetta mjög gott kerfi fyrir bókaútgefendur. Þetta er í raun eina leiðin til að bókaútgefendur eða höfundar fái eitthvað fyrir námsbækurnar af því að þær eru annars úti um allt og hver sem er getur fengið ókeypis afrit án þess að það sé vesen.

Það eru þó margt annað í stöðunni, aðrir kostir sem hægt er að pæla í. Það er varðandi opin gögn. Ef hið opinbera kostar námsbókagerð er mjög auðvelt að segja sem svo að þau gögn skuli vera opin og aðgengileg öllum og í eins hráu umbroti og hægt er, sem er í rauninni ekkert umbrot, ekkert pdf eða því um líkt, aðeins gögnin eins og þau líta út.

Þá er mjög ódýrt að breyta þeim gögnum yfir í leik eða kvikmynd eða annars konar umbrot en upprunalega var lagt upp með. Það er hægt að breyta hlutum gagnanna á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt. Það gerir það að verkum að kostnaðurinn við að breyta námsefninu er miklu minni eftir því sem fram líða stundir en við að leggjast í umbrotsvinnu við nýja útgáfu á bókinni. Hún mundi meira að segja uppfærast sjálfkrafa þannig að hægt væri að vinna í því jafnt og þétt. Þarna hafa höfundar líka tækifæri til að taka gögn sem eru opin og aðlaga það sem þeir eru sérfræðingar í og gefa til baka eða selja þann litla hluta aftur. Það eru ákveðin tækifæri sem gera það að verkum að það þarf kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því hvernig gjaldtaka verður fyrir rafbækur, en það er mjög auðvelt að falla í þá gryfju að halda áfram að selja rafbækur á pínulítið lægra verði en pappírsbækurnar. Núverandi staða á rafbókamarkaðinum er sú að rafbækur eru mjög lítið ódýrari og munurinn á verðinu er alls ekki kostnaðurinn við útprentunina. Það lítur út fyrir að framleiðendur græði meira á rafbókasölunni en á pappírnum, af því að munurinn þarna á milli er of lítill.

Það sem ég vildi koma með inn í umræðuna er að þetta er gott skref en nauðsynlegt er að endurskoða hvert viðskiptamódelið í þessu ferli er varðandi opin gögn, hvernig hægt er að minnka kostnaðinn við hráframleiðslu efnisins og hvernig hægt er að endurnýta það.