144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[18:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki tefja umræðuna en mér fannst rétt að nefna hér eitt vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um öldungadeildina við Menntaskólann í Hamrahlíð. Ég held að það sé ágætt að rifja upp þá sögu. Í kringum aldamótin voru nálægt 500 nemendur í deildinni. Síðan fækkaði þeim og voru nemendur liðlega 200 á árunum 2006–2011. Nú undir lokin, haustið 2014, eru nemendurnir einungis taldir í tugum í stað hundraða áður. Má þar vitna m.a. til orða rektors skólans.

Hver er ástæðan fyrir þessu? Jú, hún er sú að það eru ýmsir möguleikar á fjarnámi innan framhaldsskólakerfisins, háskólabrýr með námslánamöguleika og stóraukið framboð ýmiss konar námskeiða sem hefur dregið verulega úr aðsókninni á síðustu árum, frá því að vera u.þ.b. 700 manns yfir í nokkra tugi. Það er auðvitað það sem þarna er að gerast.

Mér fannst svolítið áhugaverður og skemmtilegur samanburðurinn á stöðu íslenskra námsmanna sem koma til náms í háskólum erlendis og eru eldri en nemendur sem þeir sitja við hliðina á skólabekk. Það má ábyggilega finna því stað að t.d. tvítugur Íslendingur sem sest við hliðina á 18 ára Breta á skólabekk ætti að hafa eitthvert forskot á þennan 18 ára Breta, en það á auðvitað að miða við tvítuga Bretann. Það á að miða við þann einstakling sem er kannski búinn með fyrsta árið í háskóla og búinn með annað ár í háskóla og er að hefja nám á þriðja árinu þegar Íslendingurinn galvaski og gáfaði og snjalli mætir á staðinn. Við þann einstakling á að bera sig saman, ekki þann sem er kannski tveimur árum yngri.