144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri það á þeim sem verið hafa hallir undir einokun ríkisins á sem flestum sviðum að þeir eru miklir andstæðingar þessa frumvarps. Af því að við vitum að margt annað er óhollt og menn eru búnir að setja andstöðuna við þetta frumvarp í lýðheilsubúning en tala síður um einokun ríkisins, vil ég spyrja hvort hv. þingmaður sjái ekki ástæðu til þess til að mynda að sala á tóbaki verði bara færð aftur inn í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til að takmarka aðgengið og jafnvel ganga svo langt að fækka þeim stöðum sem selja áfengi í dag í nafni lýðheilsu. Er ekki full ástæða til þess?

Auðvitað mundi enginn koma fram með svoleiðis frumvarp í dag, engum mundi detta það í hug af því að það yrði hlegið að því. En sömu rökin eru notuð núna til þess að koma í veg fyrir að eðlileg viðskipti séu með áfengi eins og alla aðra vöru.