144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel ekki að áfengi sé nein venjuleg neysluvara, hún er það ekki. Af þeim sökum tel ég að það eigi að vera takmörkun á því. Ég tel að ríkið sé best til þess fallið að halda utan um sölu á áfengi vegna þess að það erum við, samfélagið, heilbrigðiskerfið, sem tökum síðan við heilsufarslegum afleiðingum ýmissa þátta sem við þekkjum, ofneyslu áfengis og að fólk leiðist allt of ungt til áfengisneyslu og annarra vímuefna í framhaldinu.

Mér þykir ekkert að því að ÁTVR sjái um sölu á áfengi og reynslan sýnir að því er vel treystandi fyrir því hlutverki. Ég treysti ekki einkaaðilum fyrir því með sama hætti að halda utan um þessa verslunarvöru sem er ekki venjuleg neysluvara. Á þeim forsendum treysti ég ríkinu betur til þess að sinna því.

Varðandi fjölda áfengisverslana í landinu í dag og af hverju við fækkum þeim ekki bara til að draga enn þá meira úr áfengisneyslu, þá vil ég að menn sitji við sama borð hvar sem er á landinu og hafi eðlilegan aðgang að þessari vöru. Ég tel ekki að við eigum að fækka verslunum. Ég tel að málin séu í ágætishorfi víðs vegar og er ánægð með þjónustu ÁTVR en ég er líka ánægð með að ÁTVR hefur strangt eftirlit gagnvart þeim sem ekki mega kaupa vöruna. Ég svara síðari spurningu í seinna andsvari.