144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, vissulega er þessi vara lögleg, við vitum það. En við sem teljum að áfengi eigi ekki að selja í verslunum viljum að það sé áfram í höndum ríkisins að sinna þessu hlutverki vegna þess að ÁTVR hefur sinnt því mjög vel í gegnum árin. Neysla hefur verið að dragast saman undanfarin ár og það kemur þjónustustigi ÁTVR á landsbyggðinni, eða þar sem þjónustan hefur kannski ekki verið með sama hætti og hér á höfuðborgarsvæðinu, bara ekkert við. Það er eðlilegt að fólk hvar sem er á landinu hafi aðgengi að þessari vöru og þá sé búið um það með sama hætti og er annars staðar eins og hér á höfuðborgarsvæðinu varðandi strangt eftirlit.

Ég væri alveg tilbúin til að skoða allt varðandi tóbakið (Forseti hringir.) og þess vegna færa það inn í ÁTVR, ég væri alveg tilbúin að skoða það.