144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ágæta ræðu. Ég er ekki sammála.

Hún sagði að hún treysti ekki einkaaðilum til að versla með vöru eins og áfengi. En hvers vegna treystir hún þá apótekum til að versla með ópíum og ópíumlyf og annað slíkt? Það eru einkaaðilar. Hvernig stendur á því? Hvernig geta þeir yfirleitt verslað með stórhættuleg lyf?

Hv. þingmaður sagði að hún vonaðist til að flutningsmenn mundu vitkast. Ég spyr: Telur hún að ég hafi, fyrst ég er flutningsmaður, verið sérstaklega heimskur og sé nú loksins að fara að vitkast eða hvað? Mér finnst hv. þingmaður hafa talað dálítið niður til mín með því að segja að þetta sé rugl. Það er nefnilega þannig að fólk hefur mismunandi skoðanir og ég virði skoðanir hv. þingmanns þó að ég sé ekki sammála þeim. Ég geri þá kröfu hérna á Alþingi að hv. þingmaður virði líka skoðanir mínar og segi ekki að ég sé að flytja eitthvert rugl eða að ég sé að vitkast, þannig að það komi nú fram.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um apótekin og einkaaðilana sem þar versla og þess háttar, þá sem afgreiða stórum hættulegri vöru en áfengi.