144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tók það ráð að setja mig á mælendaskrá í trausti þess að umræðan mundi ekki halda áfram fyrr en hæstv. ráðherra væri kominn í hús. Ég leit svo á að nú væri orðið það áliðið dags að við mundum fara að ljúka þingstörfum og hægt yrði að halda umræðunni áfram eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra væri kominn til landsins og væri tilbúinn til að mæta í þingsal, því að þetta er auðvitað fyrst og fremst lýðheilsuumræða sem hér fer fram.

Sumir tala alveg hreint út í allt annan bláenda og láta eins og hér sé um einhverja frelsishugsjón að ræða. En þegar grannt er skoðað er þetta ekkert annað en bisness. Það er ekkert frelsi fólgið í því ef það á að allt í einu að banna fólki að selja áfengi í pylsuvögnum eða myndbandaleigum. Hvaða frelsi er það? Og hvaða frelsi er fólgið í því að hafa tóbak áfram í einkasölu? (Forseti hringir.) Þetta er bara yfirvarp.

Þetta snýst um lýðheilsumál (Forseti hringir.) og við eigum að fá hæstv. heilbrigðisráðherra hér til umræðu við okkur um það.