144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar, sem benda reyndar til þess að hann hafi ekki hlýtt á mig af athygli vegna þess að ég sagði rétt áðan að ég vildi ekki hverfa aftur til ársins 1989 heldur vildi ég ekki brenna mig tvisvar á sama soðinu.

Hann spyr: Eru þá allir Evrópumenn fávitar? Nei, alls ekki. Það segir reyndar í nýlegri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að Norðurlöndin, þ.e. þau fjögur sem hafa ríkiseinkasölu, eigi að vera fyrirmynd annarra þjóða í verslun með áfengi vegna þess að takmarkað framboð hafi áhrif á neyslu. Þar sem framboðið hefur verið aukið að mun er hægt að benda á það, t.d. í Danmörku er unglingadrykkja stórt vandamál, verulegt og vaxandi vandamál.

Ég get nefnt annað dæmi, frá Bretlandi. Þar hefur vín náttúrlega verið í öllum búðum mjög lengi. Þar gripu menn á það ráð að lengja opnunartíma vínveitingahúsa og það hefur í orðsins fyllstu merkingu sett þjóðina á hliðina. Lögreglan gerir ekki annað allar helgar en að hirða upp illa drukkið fólk úr rennusteininum. Og menn eru að hugsa um það í mikilli alvöru að stytta þennan tíma.

Hundrað ár aftur í tímann? Mér kemur á óvart að hv. þingmanni skuli þykja íhaldssemi slæm, það kemur mér í opna skjöldu. En ég get alveg tekið undir að ég sé gamaldags að þessu leyti og ég er stoltur af því.

Hvað varðar neyslu ferðamanna mega þeir hafa með sér drjúgan skammt inn í landið þegar þeir koma hingað. Ég geri ráð fyrir því, svona ef maður horfir á verðlagið á Íslandi á þessari vöru, að þeir noti tækifærið í Fríhöfninni í Keflavík og hafi með sér þann gilda skammt sem þeir mega.