144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Erum við fyrirmynd? Nei, alls ekki. Einmitt þess vegna eigum við að vera íhaldssöm í því hvernig við höfum áfengi á boðstólum.

Ég norpaði líka fyrir utan búðina við Snorrabraut og taldi það ekki eftir mér. En afleiðingarnar eru kannski aðeins lengur að koma fram en við höldum. Þær hafa sést hér á undanförnum áratugum og því er spáð að það verði enn þá meira um svokallaða lífstílstengda sjúkdóma á næstu áratugum. Það er krabbameinið, það eru hjartasjúkdómarnir, æðasjúkdómarnir, skorpulifrin. Þetta eigum við eftir að sjá í auknum mæli. Það tekur dálítinn tíma, afleiðingarnar koma ekki í ljós á morgun ef við samþykkjum þetta núna, en þær munu koma fram, því spá allir.

Hafa menn ekki lesið varnaðarorð landlæknis? Hafa menn ekki lesið varnaðarorðin í áskoruninni sem ég sýndi mönnum áðan? Þetta er það sem við þurfum að hafa í huga áður en við tökum ákvörðun.