144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir einkar upplýsta og upplýsandi ræðu sem hann flutti. Í pontu sté fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og furðaði sig á tóninum í umræðunni, kvað hana vera komna 100 ár aftur í tímann. Ég velti því fyrir mér hvort sá ágæti hv. þingmaður hafi velt því fyrir sér hver hafi dregið hana þangað aftur. Til að draga umræðuna aftur þarf afturhaldsmenn. Það verður ekki sagt um hv. þm. Þorstein Sæmundsson, því að í ræðu sinni var hann að vísa til upplýsinga sem er verið að reiða fram þessa dagana af hálfu heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og heilbrigðisyfirvalda á heimsvísu.

Spurt var hér í ræðustól hvort ástandið væri betra eða verra nú en fyrir fáeinum árum. Það er miklu verra. Menn skulu skoða „statistíkina“ og menn skulu spyrja heilbrigðisyfirvöld. Menn skulu litast um á biðstofunni hjá SÁÁ og heyra hvað sérfræðingar þeirra samtaka segja, og ég spyr: Eigum við ekki að horfa á þessar staðreyndir? Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum leiða þá sem hafa þessar upplýsingar á reiðum höndum að þinginu og hlusta eftir sjónarmiðum þeirra og sjónarmið þeirra eru að berast. Að sjálfsögðu eigum við að taka það alvarlega.

Ég fagna því líka að hér skuli vera reistur lýðheilsufáninn af hálfu þingmanns Framsóknarflokksins. Mér finnst það gott. Ég veit að einhverjir þingmenn flokksins eru á þessu frumvarpi en Framsókn á sér góða sögu í þessum málum og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur jafnan haldið þessum sjónarmiðum mjög til haga, en það var hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem var formaður í nefnd Norðurlandaráðs, félagsmálanefndinni sem setti fram mjög ágætar hugmyndir sem samþykktar voru hjá Norðurlandaráði 2012.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa upplýstu og upplýsandi ræðu sem hann hér hefur flutt.